31.7.2017 10:28

Fjölmiðlarnir og útlendingamálin

Að flytja sorgarsögu einstaklinga í fjölmiðlum skilar greinilega oft meiri árangri en að fara lögboðna leið í gegnum stjórnkerfið. Innan kerfisins eru allar hliðar mála kynntar.

Morgunblaðið birti þriðjudaginn 25. júlí frétt þar sem segir frá því að þýskir fjölmiðlar hafi ekki verið nægjanlega gagnrýnir í umfjöllun sinni um flóttamannavandann í Þýskalandi árið 2015. Þetta var árið sem Angela Merkel Þýskalandskanslari opnaði þýsku landamærin og hundruð þúsunda flótta- og farandfólks streymdi til Þýskalands.

Nú hefur umfjöllun helstu fjölmiðla landsins, þar á meðal Süddeutsche ZeitungFrankfurter Allgemeine Zeitung og Die Welt, á þróun þessara mála verið rannsökuð á vegum Otto Brenner Stiftung undir forystu Michaels Hallers, fyrrverandi ritstjóra Die Zeit. Í skýrslu stofnunarinnar segir að fram eftir ári 2015 hafi fáar ritstjórnargreinar tekið á áhyggjum, ótta og andstöðu vaxandi fjölda fólks. Í þau skipti sem það gerðist hefðu blöðin lýst megnri andúð á viðhorfi andmælenda.

Blöðin hefðu ekki gert tilraun til að greina á milli öfgamanna og venjulegs fólks sem væri uggandi vegna óheftrar komu farand- og flóttafólks. Blaðamenn hefðu einfaldlega hampað afstöðu stjórnmálaelítunnar. Þetta hefði minnkað traust til fjölmiðlanna og nýleg könnun Mainz-háskóla sýndi að 55% aðspurðra teldu að fjölmiðlar lygju kerfisbundið að þeim.

Í skýrslunni segir að ekki hafi kveðið við nýjan tón í fjölmiðlum um útlendingmálin fyrr en eftir að ráðist var með kynferðislegu ofbeldi á konur í Köln á gamlárskvöld 2015. Árásarmennirnir voru flestir frá Norður-Afríku.

Vegna þessara atburða allra jókst fylgi flokksins Alternativ für Deutschland sem stofnaður var gegn evrunni en breyttist síðan í andstöðuflokk við ríkjandi stefnu í útlendingamálum og sérstaklega gegn Angelu Merkel og stefnu hennar. Merkel dró í land vegn þrýstings innan eigin flokks, CDU, en þó einkum innan bræðraflokksins í Bæjarlandi, CSU.

Íslenskir fjölmiðlamenn hafa almennt verið á sömu línu og þýsku fjölmiðlamennirnir í útlendingamálum, fyrir atburðina í Köln, og íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki rætt útlendingamál og stefnuna í þeim á gagnrýnum grunni í garð fjölgunar þeirra sem hingað koma á ólögmætan hátt.

Við blasir stórfjölgun fólks sem segir rangt frá stöðunni í eigin löndum og kemur hingað til þess að nýta sér félagslega aðstoð á þeim langa tíma sem afgreiðsla máls þess tekur eða fer huldu höfði eins og sagt er frá á visir.is í dag. Fréttin hefst á þessum orðum:

„Íslensk stjórnvöld vita ekki hvar nokkrir tugir hælisleitenda, sem synjað hefur verið um hæli hér á landi síðustu ár, eru niðurkomnir. Vísbendingar eru um að sumir þeirra séu hér í felum og stundi svarta atvinnustarfsemi.

Samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun hafa tuttugu manns horfið það sem af er þessu ári. Síðustu ár hafi fjöldinn að jafnaði verið á bilinu tíu til fimmtán manns á ári. Talið er að flestir hafi farið af landi brott án þess að tilkynna það til stofnunarinnar, en að hinir séu enn hér á landi.“

Fyrir ekki alls löngu var rætt við lögfræðing sem sérhæfir sig í útlendingamálum í Kastljósi. Þar kom fram að lögfræðingnum þótti miður að vegna nýrra lagaákvæða gæti hann ekki beitt fjölmiðlum á sama hátt og áður í þágu skjólstæðinga sinna. 

Að flytja sorgarsögu einstaklinga í fjölmiðlum skilar greinilega oft meiri árangri en að fara lögboðna leið í gegnum stjórnkerfið. Innan kerfisins eru allar hliðar mála kynntar. Í fjölmiðlum eru aðeins þau sjónarmið kynnt sem talin eru best fyrir skjólstæðinginn. Dæmin um þessa notkun á íslenskum fjölmiðlum eru mýmörg og sé miðlað upplýsingum um hina hliðina til fjölmiðla leiðir það til átaka á borð við „lekamálið“ illræmda.