23.9.2018 9:26

Fjölmiðlamenn í ógöngum

Fáeinir málaflokkar eru þess eðlis að fjölmiðlar spyrja sjaldan gagnrýnna spurninga vegna þeirra. Þar má nefna jafnréttismál og umhverfismál.

Fáeinir málaflokkar eru þess eðlis að fjölmiðlar spyrja sjaldan gagnrýnna spurninga vegna þeirra. Þeir eru taldir falla undir sameiginlega ábyrgð ráðamanna og fjölmiðlamanna. Þar má nefna jafnréttismál og umhverfismál.

Pétur Hreinsson blaðamaður sagði frá því í Viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 20. september að hann hefði haustið

2017 skrifað frétt um ráðstefnu í Kaupmannahöfn á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og utanríkisráðuneytisins þar sem Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), kynnti „góðan árangur fyrirtækisins í jafnréttismálum“. OR hefði ráðið kynjasérfræðing til þess að rannsaka fyrirtækjamenninguna. Hann hefði ekki tekið fyrirtækið neinum vettlingatökum. Bjarni sagði að innan OR hefði verið tekið á málum „og sér í lagi væri minni áhætta á kynferðislegri áreitni. „Hún er nánast horfin,“ sagði Bjarni“. Pétur Hreinsson spyr síðan: „Er ekki við hæfi á 10 ára afmæli hrunsins að Íslendingar hætti að stæra sig af því sem virðist innihaldslaust þvaður á alþjóðavettvangi?“

Press-realeases_hdSirrý Hallgrímsdóttir, bakþankahöfndur Fréttablaðsins, skrifaði laugardaginn 22. september um fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Hún sagði:

„Í fyrsta lagi þá er merkilegt að aðrir ráðherrar hafi ekki tekið upp á því að verðlauna blaðamenn fyrir þóknanlega umfjöllun. Sjávarútvegsráðherrann gæti t.d. verðlaunað 200 mílur Morgunblaðsins fyrir skynsamlega umfjöllun um kvótakerfið og fjármálaráðherrann gæti verðlaunað Viðskiptablaðið fyrir næma umfjöllun um fjárlög.

Í öðru lagi, hvað er að blaðamönnum, finnst þeim í lagi að hljóta tilnefningar frá ráðherrum fyrir þóknanlega umfjöllun?

Í þriðja lagi þá er fyndið að verðlaun fóru til Tómasar Guðbjartssonar læknis, en sérstaklega var tekið fram að hann hefði „nýtt fjölmiðla“ í umfjöllun sinni um virkjanamál. Fjölmiðlamenn hljóta að vera afar stoltir af því að ráðherra hafi verðlaunað sérstaklega hversu sniðuglega þeir voru „nýttir“.“

Það er ekki „pólitískt rétt“ að gagnrýna þá sem taka málstað þeirra sem telja sig umgangast náttúruna betur en aðrir. Því síður eru þeir gagnrýndir sem hrósa sér  af góðum árangri í jafnréttismálum. Fjölmiðlamenn lenda því miður fljótt í ógöngum gæti þeir ekki að sér í þessu efni eins og öðrum.