20.1.2020 11:04

Fjölmiðlafrumvarp án fjöldastuðnings

Hvað sem bjartsýni ráðherrans líður er þetta mál greinilega enn í kreppu vegna þess að ekki er tekið að meginvandanum á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Aðalfrétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag (20. janúar) er reist á niðurstöðu könnunar sem sýnir lítinn stuðning almennings við hugmyndir um að ríkið styðji fjölmiðla í einkaeign. Miðlarnir hafa þó rekið áróður fyrir slíkum stuðningi árum saman og á árum áður var hann reistur á kaupum ríkisins á ákveðnum fjölda dagblaða sem seld voru í áskrift.

Næstu vikur fjallar alþingi um frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um stuðning við einkarekna fjölmiðla sem er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Mælt var fyrir málinu fyrir jól og rann umsagnarfrestur út 10. janúar. Ætlunin er, verði frumvarpið að lögum, að veita 400 milljónum árlega í stuðning til einkarekinna fjölmiðla að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Stjórnarflokkarnir:

Innan flokks Lilju, Framsóknarflokksins, styðja aðeins 32% frumvarpið en 42% eru á móti því. Innan Sjálfstæðisflokksins styðja aðeins 19% frumvarpið en 55% eru á móti. Innan þriðja stjórnarflokksins, VG, styðja 35% en 33% eru á móti.

Stjórnarandstaðan:

Mestur stuðningur mælist hjá Samfylkingu með 44% en 37% andvíg. Píratar: með 29%, á móti 45%. Miðflokkur: með 21%, á móti 50%. Viðreisn: með um 33%, á móti 38%.

Í heild leiðir könnunin til þeirrar niðurstöðu að 44% eru andvígir frumvarpinu, 25% með því en 33% skila auðu. Könnunin var gerð af Zenter 10. til 15. janúar en svarhlutfall var aðeins 52%.

309977

Innan tveggja vinstri flokka styður meirihluti kjósenda frumvarpið, naumlega í VG en greinilega í Samfylkingarinnar.

Lilja D. Alfreðsdóttir tekur niðurstöðunni vel og segir:

„Ég fagna því að rúmur fjórðungur þjóðarinnar vill styðja við rekstrarumhverfi fjölmiðla. 55 prósent þjóðarinnar eru hlynnt eða hafa ekki mótað sér skoðun á frumvarpinu og því er hægt að una vel við það.“

Sannast enn að túlka má tölur á ýmsan hátt.

Hvað sem bjartsýni ráðherrans líður er þetta mál greinilega enn í kreppu vegna þess að ekki er tekið að meginvandanum á íslenskum fjölmiðlamarkaði mikilli mismunun ríkisvaldsins í þágu ríkisútvarpsins. Í sömu andrá og rætt er um 400 m. kr. skilyrtan styrk til fjölda einkarekinna miðla borga skattgreiðendur um fimm milljarða, 5.000 m.kr., til ríkisútvarpsins sem auk þess sækir án skilyrða fram á auglýsingamarkaði.

Það sjá allir að samkeppnisstaðan er algjörlega óviðunandi. Hún tekur mið af allt öðru tæknilegu og félagslegu umhverfi en ríkir á Íslandi um þessar mundir. Hún hvetur til þess að í krafti mikilla yfirburða á markaðnum versnar þjónusta ríkisútvarpsins með síendurteknum dagskrárliðum, einsleitum fréttaflutningi, minni virðingu fyrir íslensku máli, rituðu og töluðu, samhliða takmarkaðri eða engri sérstöðu þegar kemur að öryggishlutverki.