21.6.2021 9:30

Fjölmiðlaball í kringum Ballarin

Fleiri sögur eru af sérkennilegri framgöngu Ballarin og nú er nýjast að hún hitti rannsóknarblaðamann frá fréttaþættinum Kveik í ríkissjónvarpinu í ríkmannlegu húsi sem hún átti ekki.

Í september 2020 birtust fréttir um að bandaríski fjárfestirinn Michele Ballarin skoðaði nú réttarstöðu sína eftir að stjórn Icelandair hafnaði sjö milljarða tilboði hennar í hlutafjárútboði Icelandair. Ekkert heyrðist meira af því máli. Áður höfðu verið sagðar fréttir af áhuga Ballarin á að endurreisa WOW flugfélagið. Allt reyndist það á sandi reist.

Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifaði 12. júli 2019 grein í blaðið og sagði erfitt að afla upplýsinga um fyrirtækið Oasis Aviation Group (OAG) sem átti að hafa keypt allar eignir þrotabús WOW air. Lögmaður kaupandans gat ekki sagt neitt um hver skjólstæðingur hans væri.

Lýsti Gunnlaugur Snær árangurslausum tilraunum sínum til að afla upplýsinga um OAG í Bandaríkjunum. Á vef OAG kæmi fram að fyrirtækið væri með aðsetur í skrifstofuhúsnæði við Dulles-flugvöll í Washington.

Í gagnagrunni innanríkisráðuneytisins í Vestur-Virginíu segði að aðsetur fyrirtækisins væri að 6016 Lee Highway í Warrenton í Virginíuríki. Ef marka mætti kortavef Google væri þetta skóglendi, „en líklega er það lóð sem tilheyrir skráðum stjórnanda, Michele Ballarin,“ segir í fréttinni.

Gunnlaugur Snær segir Ballarin eiga „einstaka forsögu“ til dæmis sem „lausnargjaldsmiðlari þegar sjóræningjar undan ströndum Sómalíu tóku skip og áhafnir í gíslingu“. Um var að ræða skip frá Úkraínu og kvartaði þáv. utanríkisráðherra landsins undan afskiptum Ballarin til Hillary Clinton, þáv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hún yrði að stöðva Ballarin sem hefði „í raun hvatt sjóræningjana til rakalausrar hækkunar lausnargjaldsins sem krafist er af eiganda skipsins“.

1156303Michele Ballarin skýrir áform sín fyrir blaðamönnum í september 2019 – hún sagðist að vísu ekki geta farið út í smáatrið! (Mynd: mbl.is)

Fleiri sögur eru af sérkennilegri framgöngu Ballarin og nú er nýjast að hún hitti rannsóknarblaðamann frá fréttaþættinum Kveik í ríkissjónvarpinu í ríkmannlegu húsi sem hún átti ekki. Var frá þessu skýrt í The Washington Post í fyrri viku. Viðtal Kveiks var tekið í janúar eða febrúar 2020 og sýnt í þættinum 4. febrúar 2020. Þar má sjá Ballarin sýna fréttamönnum RÚV húsið og vísar hún þeim meðal annars inn í svefnherbergi sem hún segir vera sitt. Þegar fréttamaður RÚV bendir á að eignin sé skráð í sölu segir Ballarin að hún hafi nýlega keypt eignina. Hún sé ekki til sölu.

Kveikur er kynntur sem þáttur rannsóknarblaðamennsku og viðmælandi í honum býr til leiktjöld til að sýnast ábúðarmeiri. Var nokkuð að marka sem Ballarlin sagði yfirleitt? Hver skyldi hafa staðið að baki allri blekkingariðju hennar hér? Var þetta allt tilraun til að draga fjölmiðlamenn og Íslendinga á asnaeyrunum? Hafði einhver fjárhagslegan ávinning af þessu fréttafalsi? Í einu samtali sagðist hún verða að flýta sér í flug síðdegis á laugardegi til að leika á orgel við messu vestan hafs á sunnudeginum.

Miðað við það sem sagt var frá Ballarin í fjölmiðlum hér á árinu 2019 vegna WOW og síðan vegna Icelandair í september 2020 er í óskiljanlegt að samtal við hana hafi birst í Kveik í húsi sem vakti þó grunsemdir fréttamannsins. Hvers vegna hefur ágæti þessarar konu sem fjárfestis í íslenskum flugfélögum verið haldið að okkur í fjölmiðlum? Skyldi hún ætla að taka þátt í útboði Play?