2.12.2018 10:45

Fjölbreyttur 1. desember

Afmælisnefndin undir formennsku Einars K. Guðfinnssonar, fyrrv. þingforseta og ráðherra, hefur staðið vel að því að framkvæma það sem fyrir hana var lagt með ályktun alþingis frá 2016.

Hápunktur 100 afmælis fullveldisins var í gær. Afmælisnefndin undir formennsku Einars K. Guðfinnssonar, fyrrv. þingforseta og ráðherra, hefur staðið vel að því að framkvæma það sem fyrir hana var lagt með ályktun alþingis frá 2016.

Stórviðburðirnir sem nutu mestrar athygli í sjónvarpi voru á vegum alþingis á Þingvöllum 18. júlí og á vegum ríkisstjórnarinnar við Stjórnarráðshúsið og í Hörpu sunnudaginn 1. desember.

Vatnid-i-natturu-islands-rg3Alþingi bauð Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, hingað. Það varð til þess að þingmenn Pírata og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar urðu sér til skammar.

Vegna hátíðarinnar 1. desember komu Margrét Þórhildur Danadrottning og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, til landsins. Voru þau við Stjórnarráðshúsið í norðangarra miðdegis.

Danski forsætisráðherrann tók þátt í fjölmennri athöfn í Perlunni klukkan 14.00 þegar Náttúrugripasafnið opnaði þar sýningu um vatnið.

Danadrottning opnaði sýningu í Veröld – húsi Vigdísar klukkan 16.30. Sýningin ber heitið Sagatid – Nutid og þar má í fyrsta sinn sjá frummyndir Karin Birgitte Lund úr nýrri, glæsilegri fimm binda útgáfu forlags Jóhanns Sigurðssonar, Sögu, á Íslendingasögunum. Kynning á þeim viðburði var misvísandi.

Utan sjálfrar hátíðardagskrárinnar var fjölmenni í Perlunni klukkan 18.00 þegar opnuð var sýningin Undur íslenskrar náttúru. Eftir að þessi sýning hefur verið opnuð tekur Perlan á sig algjörlega nýjan og skemmtilegan svip. Aðdráttarafl hennar eykst og fróðleikurinn sem þar má afla um náttúru Íslands er mikill og góður.

Aðsóknin  að Undri íslenskrar náttúru  var svo mikil þennan fyrsta dag að ekki gafst færi á að fara inn í gamla vatnstankinn sem geymir kvikmyndasýninguna af himinhvolfinu.

Að kvöldi 1. desember var efnt til hátíðardagskrár í Eldborg Hörpu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti samkomuna. Þá flutti Danadrottning ræðu og afhenti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, að gjöf útgáfu á dagbókarfærslum Kristjáns X. afa síns sem ná fram yfir þann dag þegar Ísland varð sjálfstætt lýðveldi 17. júní 1944. Borgþór Kjærenested hefur þegar þýtt þennan texta á íslensku með leyfi dönsku hirðarinnar og er einkennilegt að hann hafi ekki birst á prenti.

Að loknum ræðum þjóðhöfðingjanna og forsætisráðherra hófst löng dagskrá í tali og tónum þar sem ýmsu ægði saman. Heiti dagskrárinnar var Íslendingasögur – sinfónísk sagnaskemmtun. Þar komu þó einnig við sögu tónverk eftir Vivaldi og Mozart auk grænlensks trumbusláttar. Flytjendur stóðu sig vel en efnið fór fyrir ofan garð og neðan fyrir utan að auglýst tímamörk voru þverbrotin.