27.11.2021 11:55

Fjölbreytni í veiruvörnum

Sóttvarnareglurnar eru eins margar og þjóðirnar þótt veiran sé sú sama alls staðar. Það sýnir óvissuna um hvað hvað gagnast best.

Hvarvetna í heiminum takast þjóðir á við COVID-19 og þegar nýtt afbrigði finnst standa allar þjóðir á öndinni yfir hvort það eigi eftir að hafa áhrif á daglegt líf þeirra. Hvað sem öðru líður hafa gagnaðgerðir hér verið mildar miðað við það sem gerist í ýmsum nágrannalöndum.

Fréttir af nýja afbrigðinu ómíkrom valda nýjum ótta. Sagt er að það smitist hraðar en delta sem leiddi til harðra aðgerða í Austurríki og Hollandi til að takmarka samskipti fólks. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) haf afbrigðinu þetta nafn föstudaginn 26. nóvember en tilkynnt var um það í Suður-Afríku miðvikudaginn 24. nóvember.

Enn er ekki fullreynt hver er skaðsemi ómíkrom eða hvort bóluefni veita vörn gegn því en WHO segir ástæðu til að „hafa áhyggjur“ af því.

COVID_test1m_qgqf6eHraðpróf – nýr þáttur daglegs lífs? Heimilspróf eru ekki tekin gild. Strikamerkin verða að fylgja.

Nýr varúðarþáttur bætist í daglegt líf hér á landi með kröfunni um að framvísað sé sönnun fyrir neikvæðri niðurstöðu í hraðprófi sæki menn samkomur þar sem fleiri en 50 manns hittast, hvort sem það eru jarðarfarir eða tónleikar svo að dæmi séu nefnd.

Í auglýsingu um opinbera fyrirlestra í Háskóla Íslands er tekið fram að þar megi ekki vera fleiri en 50. Setið er með grímu eftir að nafn, kennitala og símanúmer er skráð á sérstakt eyðublað fyrir inngöngu í fyrirlestrasal. Við hvert sæti er QR-merki og er þess óskað tekin sé mynd af því á farsíma og hún geymd í honum í tvær vikur til að auðvelda rakningu, greinist smit.

Skráning í hraðpróf og nýting niðurstöðu úr því er reist á fjarskiptatækni tölvu/sima. Niðurstaðan má ekki vera eldri en 48 stundir eigi að nota hana vegna viðburðar.

Ég hef tvisvar farið í slíkt próf hjá Öryggismiðstöðinni í Kringlunni, þar sem Fjallakofinn var áður til húsa, nú síðast í morgun (27. nóv.) vegna viðburðar síðdegis á morgun. Þar var fjöldi fólks að fara í prófið um klukkan 10.00. Fyrir minn klaufaskap klúðraðist skráningin en því var kippt í lag á staðnum og um 20 mínútum eftir að sýnið var tekið fékk ég neikvæðu niðurstöðuna senda. Frábær, gjaldfrjáls þjónusta með starfsfólki sem flest ávarpaði mann á ensku.

Sóttvarnareglur eru ekki aðeins mismunandi eftir löndum heldur einnig aðferðin við að setja þær og hrinda í framkvæmd. Í danska þinginu er til dæmis sérstök sóttvarnanefnd (d. Epidimediudvalg) sem tekur afstöðu til tillagna sóttvarnayfirvalda. Mikill meirihluti þessarar nefndar samþykkti að frá og með mánudeginum 29. nóvember verði að nýju gert skylt að ganga með grímu eða hjálmgrímu verslunum og stórmörkuðum. Starfsmenn verslana þurfa þó ekki að ganga með grímu ef þess er krafist innan fyrirtækisins að starfsmennirnir séu með gildan kórónupassa, það er hafi farið í PCR-próf innan 72 tíma og hraðpróf innan 48 tíma. Sama regla gildir um ökumenn almenningsfarartækja, leigubíla eða starfsmenn í innanlandsflugi, grímuskyldan er ekki skilyrðislaus.

Danir höfðu afnumið öll sóttvarnahöft en innleiða þau að nýju frá og með 29. nóvember með kröfu um kórónupassa á næturklúbbum, innandyra á veitingastöðum, hársnyrtistofum og fleiri þjónustustöðum. Þá er passans einnig krafist þegar fleiri en 100 koma saman innan dyra á fyrirlestrum, ráðstefnum, messum o.fl, án þess að tónleika eða leiksýninga sé sérstaklega getið, og 1.000 utan dyra.

Sóttvarnareglurnar eru eins margar og þjóðirnar þótt veiran sé sú sama alls staðar. Það sýnir óvissuna um hvað hvað gagnast best fyrir utan fullvissuna um að bólusetning og umhyggja hvers og eins fyrir eigin heilbrigði ráði mestu að lokum.