7.5.2023 10:36

Fjárveitingarvald kærunefndar

Sósíalistinn Ögmundur Jónasson sagði í grein í Morgunblaðinu að útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála færu að fyrirmælum Bandaríkjastjórnar við svartsýna matið í júlí 2022 á ástandinu í Venesúela.

Sjálfkrafa hækkun ríkisútgjalda vegna straums fólks hingað frá Venesúela nemur nú mörgum milljörðum króna á ári.

Kærunefnd útlendingamála úrskurðaði í júlí 2022 að alvarlegt efnahagsástand í Venesúela og skortur á aðgengi almennings að fæðu, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu stafaði fyrst og fremst af aðgerðum stjórnvalda en ekki af utanaðkomandi þáttum. Laun dygðu ekki til að uppfylla grunnþarfir almennings í landinu, skortur á hreinu drykkjarvatni, há glæpatíðni, skortur á lögregluvernd og algert hrun réttarkerfisins leiddi til þess að rétt væri að veita Venesúelabúum viðbótarvernd hér á landi.

Viðbótarvernd nær lögum samkvæmt til útlendings sem telst ekki flóttamaður en talin er „raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum handahófskennds ofbeldis vegna vopnaðra átaka verði hann sendur aftur til heimalands síns“.

Útlendingastofnun sendi frá sér frétt 14. apríl um að hún hefði „rýnt nýjustu heimildir og skýrslur erlendra ríkja og alþjóðlegra stofnana um aðstæður í Venesúela“. Telur stofnunin að aðstæður í Venesúela „nái ekki því alvarleikastigi að þær einar og sér eigi að leiða til þess að allir sem staddir eru í Venesúela eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð“.

0d0ca8c778af57fb8a92221355c37246b25bc413Bandarískir fjölmiðlar segja að þeir sem flýja Venesúlea leggi land undir fót til nágrannaríkja og haldi síðan til Bandaríkjanna eftir að hafa náð sér á strik eftir fátæktina í heimalandinu. 

Boðar útlendingastofnun breytingu á mati sínu á umsóknum frá þeim sem segjast koma frá Venesúela og verði hver og ein umsókn metin „út frá einstaklingsbundnum aðstæðum og fyrirliggjandi heimildum um ástandið nú“.

Sósíalistinn Ögmundur Jónasson sagði í grein í Morgunblaðinu að útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála færu að fyrirmælum Bandaríkjastjórnar við svartsýna matið í júlí 2022 á ástandinu í Venesúela.

Að bandarísk stjórnvöld leggi þeim lið sem vilja sem mestan straum flóttamanna frá Venesúela stangast á við vandræði Joes Bidens Bandaríkjaforseta vegna straums fólks yfir suður landamæri Bandaríkjanna.

Bandarískir fjölmiðlar segja að þeir sem segjast koma frá Venesúela kunni að vísu að hafa búið þar einhvern tíma en almennt hafi þeir sest að í nágrannaríkjum og taki sig upp þaðan að nýju. Skipulagðir glæpahópar aðstoði fólkið við að komast inn í Bandaríkin.

Hingað koma Venesúelabúar almennt í gegnum Madrid eða Barcelóna auk stærstu flugvalla í Evrópu. Að þetta fólk komi beint frá Venesúela stangast á við almenna skynsemi enda er því almennt hafnað annars staðar í Evrópu.

Kærunefnd útlendingamála ætlar nú að taka sér nokkrar vikur eða jafnvel mánuði til að rýna í ákvörðun útlendingastofnunar frá 14. apríl 2023. Á meðan streyma milljarðarnir áfram úr ríkissjóði til að tryggja fólkinu „viðbótarvernd“.

Sé málið rætt á alþingi, sem fer með fjárveitingarvaldið, hefjast hróp og köll nálgist menn kjarna málsins og píratar standa á öndinni þar til Samfylking, Viðreisn og vinir tryggja að fjárstreymið úr ríkissjóði sé ekki stöðvað.