20.7.2017 10:08

Fjármálaráðherra á evru-villigötum

Röksemdafærsla fjármálaráðherra Íslands með vísan til fjármálaráðherra í nítján Evrópulöndum er reist á sandi.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hætti að boða seðlalaus viðskipti eftir að ljóst var að þau áttu hvergi hljómgrunn nema í nefnd sem skilaði honum áliti þar sem afnám seðla með hátt gildi var talið sporna gegn skattsvikum.

Í grein í Fréttablaðinu í dag segir hann framboð flokks síns Viðreisnar hafa verið til að stuðla að sátt í samfélaginu. Þótt þess sjáist hvorki merki í landbúnaði né sjávarútvegi þar sem ráðherra flokksins fer með forystu telur flokksformaðurinn að hann geti rétt fram sáttahönd með því að boða nú að krónan víki fyrir evrunni, sjálf krónan sé undirrót ósættis i samfélaginu.

Í fyrrnefndri grein segir fjármálaráðherra meðal annars:

„En má fjármálaráðherra hafna krónunni? Fjármálaráðherrar í nítján Evrópulöndum hafa þegar hafnað sínum miðli fyrir evruna. Enn fleiri nýta sér evruna án beinnar aðildar eða tengja gjaldmiðil sinn beint við evru. Já, fjármálaráðherra ber skylda til að leggja til þann kost sem er farsælastur fyrir Íslendinga.“

Í ofangreindum orðum felst nokkur einföldun. Frá því að evran var innleidd 1. janúar 1999 hafa 13 ríki gerst aðilar að ESB, öllum ríkjunum hefur verið gert skylt að taka upp evru. Fjármálaráðherrar þessara ríkja höfðu ekkert val. Það er ekki unnt að semja sig undan evrunni vilji ríki aðild að ESB.

Tvær þjóðir sem voru í ESB árið 1999 áskildu sér rétt til að taka ekki upp evru, Bretar og Danir. Bretar hafa rætt aðild að evru en krafa um hana aldrei náð neinu flugi og nú eru þeir á leið úr ESB á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2016.

Danska ríkisstjórnin boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um upptöku evru árið 2000 og var upptöku hennar hafnað með 53,2% atkvæða gegn 46,8%. Skömmu síðar hitti ég danskan ráðherra sem hafði barist fyrir upptöku evrunnar á fundum um alla Danmörku og sagðist aldrei ætla að láta hafa sig út í slíka vitleysu aftur.

Svíar gerðu ekki fyrirvara um evru-aðild eins og Bretar og Danir á sínum tíma. Árið 2003 var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um evru-aðild í Svíþjóð og var tillaga um hana felld með 55,9% atkvæða. Síðan hefur málið ekki verið á dagskrá og sænska ríkisstjórnin hefur forðast að stíga nokkur skref í átt að evru-aðild þrátt fyrir þrýsting frá framkvæmdastjórn ESB og seðlabanka evrunnar.

Þrjár ESB-þjóðir sem standa næst okkur landfræðilega og menningarlega hafa hafnað aðild að evru-samstarfinu hvað svo sem fjármálaráðherrum þeirra hefur fundist. Þjóðirnar standa sig almennt betur efnahagslega en evru-þjóðirnar.

Röksemdafærsla fjármálaráðherra Íslands með vísan til fjármálaráðherra í nítján Evrópulöndum er reist á sandi. Að tillaga hans um að taka upp evru stuðli að sátt í samfélaginu er í ætt við trú hans á að  tillagan um seðlalaus viðskipti skapaði sátt í baráttunni gegn skattsvikum.