Fjármálaóstjórn Reykjavíkurborgar
Málin sem nefnd eru til sögunnar þegar rætt er um mistök við fjármálastjórn á vakt Dags B. eru fjölmörg. Hér skal auk „bakreikningsins“ hjá Sorpu minnt á braggann við Nauthólsvík, mathúsið á Hlemmi og vitann við Sæbraut.
Stjórnarfundur í Sorpu sem er að 56% í eign Reykjavíkurborgar var haldinn mánudaginn 2. september. Þar var kynntur til sögunnar tæplega 1,4 milljarða „bakreikningur“. Af því tilefni sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn og formaður borgarráðs, á Facebook:
„Svona lagað á ekki að geta gerst en ég er því miður ekki hissa. Kerfið sem sveitarfélög um allt land hafa komið sér upp, svokölluð byggðasamlög, eru að mínu mati óskiljanlegt fyrirbæri sem klífur ábyrgð og ákvarðanatöku í sundur.“
Þarna birtist strax tilraun til að skella skuldinni á kerfið frekar en þá sem ábyrgðina bera.
Það er engu stjórnkerfi að kenna að ekki séu færðar 1.400 milljónir króna í reikning félags. Þar er ekki um annað en óstjórn að ræða. Listin í því að fara undan í flæmingi í von um að mál gleymist er helsta einkenni meirihlutans undir forystu Dags B. Eggertssonar.
Athafnasvæði Sorpu.
Málin sem nefnd eru til sögunnar þegar rætt er um mistök við fjármálastjórn á vakt Dags B. eru fjölmörg. Hér skal minnt á braggann við Nauthólsvík, mathúsið á Hlemmi og vitann við Sæbraut.
Þegar rætt var um braggann mátti skilja niðurstöðuna á þann veg að ekki hefðu verið gefnar upp réttar kostnaðartölur í upphafi vegna þess að þá hefði aldrei verið ráðist í verkefnið. Átti þetta við um allar þessar framkvæmdir? Var þessari aðferð beitt í Sorpu? Henni var beitt hjá orkuveitunni við byggingu Orkuveituhússins, það átti að kosta 2,4 milljarða, kostaði 6 til 7 milljarða og hefur nú verið dæmt ónýtt að hluta.
Undanbrögðin í þágu óstjórnarinnar hjá þeim sem ábyrgðina bera benda til að litið sé á þetta sem reglu. Vegna Sorpu „blöskrar“ þeim vegna þess hve há upphæðin er, varpa síðan skuldinni á útsvarsgreiðendur og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Kristinn Pétursson, fyrrv. alþingismaður, segir á Facebook í tilefni af umræðum um fjármál Reykjavíkurborgar:
„Í fyrra var til „Samstæðureikningur Reykjavíkurborgar“ ( fyrir árið 2017) sem sýndi skuldir borgarinnar ásamt „dótturfyrirtækjum“. Nú er enginn slíkur samstæðureikningur - bara ársreikningur OR og svo ársreikningur borgarinnar. Samanlagðar skuldir borgarinnar + OR eru (báðir ársreikningar) virðast því 243% fyrir árið 2018. Ég reiknaði bara 93% af skuldum OR eins og eignahlutir borgarinnar í OR. Af hverju er „samstæðureikningurinn“ látinn hverfa fyrir árið 2018? Samt eru eftir fleiri skuldir - hlutur borgarinnar í skuldum Sorpu - Línu/Net o.fl. Borgin „á“ 56% í Sorpu og þar með 56% af skuldunum. Heildar skuldir borgarinnar virðast því komnar yfir 250% af veltu ( árslok 2018) - og enginn segir neitt... RÚV „fór á límingunum“ af hneykslun þegar Reykjanesbær skuldaði 230% af veltu... en þá var Sjálfstæðisflokkurinn þar í meirihluta sem er „allt annað mál“ Nú eru „réttir aðilar“ við stjórn Reykjavíkurborgar (að mati RUV?) og þá skal „logið með þögninni“ eins og maðurinn sagði... Óstjórnin hjá Reykjavíkurborg virðist á öllum sviðum - hrikaleg...“