1.11.2018 14:25

Fjáraustur vegna Gunnars Smára

Markaðurinn nefnir fjárausturinn mikla vegna NFS sem sniðin var fyrirmynd CNN eða Sky News og vegna Nyhedsavisen og fríblaðs í Boston.

Í fylgiblaði Fréttablaðsins  um viðskiptamál, Markaðnum, birtist nafnlaus ritstjórnardálkur. Þar er miðvikudaginn 31. október snúist til varnar fyrir menningarstjóra Fréttablaðsins og leiðarahöfund Kolbrúnu Bergþórsdóttur. Hún hafði í leiðara varað við stóryrðaflaumi og stéttastríðsrausi forystumanna í verkalýðshreyfingunni og hugmyndafræðinga þeirra. Fyrir bragðið fékk hún á sig stimpilinn „húsþræll“. Vegna þessa sagði í dálki Markaðarins:

„Helsti hugmyndafræðingur fylkingarinnar [sem ræðst á Kolbrúnu og fleiri] er uppgjafakapítalisti [Gunnar Smári Egilsson] sem á árum áður bar ábyrgð á mesta fjáraustri í sögu íslenskrar fjölmiðlunar með síbyljustöðinni NFS og danska fríblaðinu Nyhedsavisen. Síðar varð hann frægur að endemum fyrir að greiða ekki starfsmönnum

sínum á Fréttatímanum laun á lokametrum þess ævintýris. Hann er þegar farinn að senda sínum nýju félögum reikninga, væntanlega eru þeir eilítið hærri en lægstu launin.“

Fréttablaðið lýtur enn eigendavaldi þeirra sem keyptu blaðið með leynd af Gunnari Smára árið 2002 og stóðu síðan að fjáraustrinum mikla vegna NFS sem sniðin var fyrirmynd CNN eða Sky News og vegna Nyhedsavisen og fríblaðs í Boston sem átti að marka þáttaskil í blaðaútgáfu í Bandaríkjunum. Eftir hrun deildu þeir um hve milljarðatugirnir voru margir sem Jón Ásgeir Jóhannesson lét Gunnari Smára í té til að leika stórmógúl í fjölmiðlun hér og erlendis.

Nyhedsavisencollagw.width-720_1541082233126Þessi mynd birtist á vefsíðunni Kjarnanum í fyrra. Gunnar Smári hratt Nyhedsavisen af stað í Danmörku fyrir fé frá Jóní Ásgeiri.

Í Markaðnum er fullyrt að Gunnar Smári sé þegar farinn að senda skjólstæðingum sínum í verkalýðsfélögunum reikninga. Fréttir hafa birst um að fjármálastjóra Eflingar-stéttarfélags var skipað að taka veikindaleyfi þegar reikningur frá eiginkonu Gunnars Smára var ekki greiddur tafarlaust.

Þetta eru allt kaldar staðreyndir sem við blasa. Á ólíklegustu stöðum gefst Gunnari Smára hvað eftir annað tækifæri til að reyna að kjafta sig frá þeim með því að benda á einhver furðuvirki, nú síðast að hann sem sósíalisti sé einhver sérstakur talsmaður launafólks eða leigjenda.

Mikill minnihluti í Eflingu-stéttarfélagi stóð að kjöri Sólveigar Önnu Jónsdóttur í formennsku félagsins. Síðan hefur hún ráðið tvo háskólamenn, Stefán Ólafsson og Viðar Þorsteinsson, til starfa fyrir félagið og í jaðrinum er Gunnar Smári.

Sjóðir Eflingar eru sagðir nema 12 milljörðum. Með því að setja fjármálastjórann og bókarann í veikindaleyfi er ætlunin að móta nýjan farveg fyrir aðgang að fjármunum félagsins. Hvers vegna er það forgangsmál?