11.5.2020 9:26

Fjaðrafok vegna forstjórabréfs

Drífu Snædal hefur á skömmum tíma tekist að jaðarsetja ASÍ með því að stunda kapphlaup við þá sem belgja sig mest í röðum samtakanna.

Fréttastofa ríkisútvarpsins olli uppnámi sunnudaginn 10. maí þegar hún lagði út af bréfi til starfsmanna Icelandair sem Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, sendi á innri vef félagsins laugardaginn 9. maí. Efni málsins er lýst á þennan veg á ruv.is:

„Í bréfi sem Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sendi starfsmönnum í gærkvöldi [9. maí], kemur fram að draga þurfi úr kostnaði [til að fé fáist til að bjarga félaginu]. „Launakostnaður er þar stærsti liðurinn og launakostnaður flugstétta vegur þar þyngst,“ segir í bréfinu. Forstjórinn hrósar starfsfólki en segir svo: „Það er engu að síður mjög sérstök staða að vera í, að vinna dag og nótt við að bjarga fyrirtækinu með frábæru samstarfsfólki og upplifa það á sama tíma að helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu.“

1200154Eggert ljósmyndari mbl.is tók þessa mynd í tómlegri Leifsstöð á dögunum.

Í hádegisfréttum sunnudaginn 10. maí ræddi Kristín Sigurðardóttir á ríkisútvarpinu við Guðlaugu Líney Jóhannsdóttur, formann Flugfreyjufélags Íslands. Þessu var meðal annars útvarpað:

„Er verið að biðja ykkur um að taka á ykkur launalækkun?

„Það sem liggur á samningaborðinu er launalækkun og skerðing á réttindum til frambúðar og það er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við. Flugfreyjufélagið er til í að gera tilslakanir í ákveðinn tíma til að aðstoða félagið yfir erfiðasta hjallann. Við erum einnig tilbúinn til að gera lengri samning samhliða því,“ segir Guðlaug.

En ekki að taka á ykkur varanlegri skerðingar?

„Nei, við ætlum ekki að gera það,“ segir Guðlaug.

Nú hljómar þetta bréf eins og ábyrgðin sé sett á herðar starfsfólkinu, hvað finnst þér um það?

„Mér finnst það bara grafalvarlegt og eitthvað sem á ekki að tíðkast í íslensku þjóðfélagi,“ segir Guðlaug.“

Það fór ekki á milli mála hvað klukkan sló á fréttastofunni og forysta Alþýðusambands Íslands var ekki lengi að taka við sér. Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði á Facebook:

„Yfirlýsingar forsvarsmanna Icelandair um ábyrgð starfsfólks á framtíð fyrirtækisins hafa vakið eðlilega og mikla reiði enda einstaklega ósvífnar.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fór einnig á Facebook og vandaði stjórnendum Icelandair ekki kveðjurnar, lét eins og hann vissi betur en þeir hvernig ætti að reka félagið og sagði síðan:

„En mikið er ég orðin þreyttur á því að alltaf skuli starfsfólkið vera aðal vandamálið þegar illa gengur þegar annað er augljóst.“

Drífu Snædal hefur á skömmum tíma tekist að jaðarsetja ASÍ með því að stunda kapphlaup við þá sem belgja sig mest í röðum samtakanna.

Engu er líkara en Drífa og félagar telji umbjóðendum sínum fyrir bestu að tala á svo ábyrgðarlausan hátt að enginn taki mark á þeim. Þeir sem þannig láta eiga erfitt með að sætta sig við orð hinna sem segja hlutina eins og þeir eru. Bogi Nils Bogason gerði það eitt í innanhúsbréfi sínu sem fréttastofa ríkisútvarpsins kynnti með dramatískum afleiðingum.