26.8.2020 12:13

Fishrot-hneyksli þar og hér

Pólitísk spenna í Namibíu vegna Fishrot-hneykslisins er mikil. Píratar og fleiri reyna að endurspegla hana hér á landi.

Mest lesna greinin á vefsíðu dagblaðsins The Namibian snýst um reiði Hage Geingobs, forseta Namibíu, yfir því að bornar séu á hann upplognar sakir um tengsl við „the Fishrot scandal“.

Marén de Klerk lögfræðingur flýði frá Namibíu til Suður-Afríku í ársbyrjun og í The Namibian segir að hann óttist um líf sitt auk þess sem unnið sé gegn því að hann geti sinnt lögfræðistörfum í Namibíu. Í blaðinu segir:

„Lögfræðistofa De Klerks, Horn & Coetzee Inc., og fyrirtæki sem hann á einn og stýrir, Celax Investments Number One, eru nefnd í sakarefnum á hendur fyrrverandi ráðherra fiskveiða og sjávarauðlinda Bernhard Esau og fyrrverandi dómsmálaráðherra Sacky Shanghala auk fjögurra annarra sem eru til rannsóknar í öðru að tveimur Fishrot-spillingarmálunum.

Í sakarefnum gegn fyrrverandi ráðherrunum tveimur og öðrum með þeim heldur ríkið því fram að 75,6 milljónum namibískra dollara kvóta-nýtingarfé, sem fyrirtæki í Samherja fyrirtækjasamsteypunni átti að hafa greitt National Fishing Corporation of Namibia [fiskveiðistjórn Namibíu], hafi verið beint í gegnum bankareikninga lögfræðistofu De Klerks og Celax Investments Number One og skipt á milli mannanna sex sem liggja undir sök í málinu eða aðila á þeirra vegum.“

Í leiðara The Namibian 21. ágúst er vikið að spillingu meðal lögfræðinga í Namibíu. Þar segir meðal annars:

„Upplýsingar sem hafa komið fram í dómstólum okkar gefa til kynna að milljarður namibískra dollara sem tengist Fishrot-hneykslinu sé á reikningi í Kazakhstan. Hvernig í ósköpunum hefur verið unnt að taka slíka risafjárhæð úr hagkerfi Namibíu og fela hana í fyrrverandi í sovésku lýðveldi án aðstoðar sérfæðinga sem skipa virðulegar stöður í samfélaginu?

Hvað verður um sérmenntaða starfsmenn í Namibíu eins og lögfræðinga, fjármálaráðgjafa og endurskoðendur fái þeir það orð á sig að þeir aðstoði ekki við að gera það sem er rétt?“

Hage_GeingobHage Geingob, forseti Namibíu.

Hage Geingob, forseti Namibíu, sagði almenning verða undrandi og fyrir vonbrigðum þegar í ljós kæmi að hann ætti engan hlut að Fishrot-hneykslinu. Grunsemdum hefur verið hreyft um að í kosningabaráttu hafi forsetinn átt aðgang að fé með rætur í Fishrot.

„Sé málið til rannsóknar, leyfum þeim að rannsaka það og finna staðreyndir. Hver hindrar þá?“ spurði forsetinn á blaðamannafundi. Þegar hann var spurður hvort hann mundi losa sig við einka-lögfræðing sinn, Sisa Namandje, sem sagður er tengjast Fishrot-hneykslinu, svaraði hann: „Hefur hann verið fundinn sekur? Sef ég hjá honum? Um hvað eruð þið að tala? Hvað vakir eiginlega fyrir ykkur?“

Þessar lýsingar á háspennunni í Namibíu vegna Fishrot-hneykslisins sem enn er til rannsóknar koma í hugann þegar lesin er grein eftir Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, í Fréttablaðinu í dag (26. ágúst) þar sem hún ber sakir á Eyþór Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fyrir „tengsl við fyrirtæki sem Samherji notar til að múta stjórnmálafólki um allan heim“ og segir að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra sé „notaður sem leikmunur á hákarlafundi“ Samherja.