13.5.2019 14:06

Firring Miðflokksins í O3-málinu

Núverandi forystumenn Miðflokksins hafa alla tíð sýnt efnislegum þáttum O3-málsins tómlæti.

Á fundi utanríkismálanefndar í morgun var 3. orkupakkinn til meðferðar. Komið var að því að taka málið úr nefndinni eins og sagt er þegar mál eru lögð fram til annarrar umræðu með áliti nefndarmanna. Hér er um þingsályktunartillögu að ræða og verður hún afgreidd af hálfu þingsins með atkvæðagreiðslu að lokinni annarri umræðu um málið.

Í liðinni viku fékk nefndin gesti á fundi sína, innlenda og erlenda. Athygli vakti að fulltrúi Miðflokksins í nefndinni, Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður flokksins, sótti ekki fundi nefndarinnar. Hvorki hann né Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tóku þátt í umræðum eða atkvæðagreiðslu um málið 8. og 9. apríl.

UtanrikisUtanriklismálanefnd alþingis fundatr um O3. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður hefur haldið skipulega á málinu þar í einn mánuð. Mynd af mbl.is

Nú þegar komið er að úrslitastund í málinu á þingi senda þingmenn Miðflokksins frá sér tilkynningu þar sem þeir lýsa óánægju með að málið hafi verið tekið úr nefndinni. „Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum nema einu, atkvæði Miðflokksins. Aðeins er gefinn einn dagur til þess að leggja fram minnihlutaálit. Það er er óeðlilega skammur tími í jafn stóru máli,“ segja þeir.

Þingmenn Miðflokksins telja málsmeðferðina óboðlega. Miðað við allt og að þeir tóku ekki þátt í nefndarstörfunum hafa þeir haft feikinógan tíma til að semja álit sitt. Þingmenn Miðflokksins segja:

„Hér er um að ræða afar þýðingarmikið mál sem varðar mikla þjóðarhagsmuni. Nefnd er tekur slíkt mál til umfjöllunar ber að kynna sér sjónarmið allra þeirra er þekkingu hafa á slíkum málum, annað er Alþingi lítt til sóma.

Það má ljóst vera að ætlunin er að þröngva málinu í gegnum Alþingi á sem skemmstum tíma þrátt fyrir að málið valdi mörgum áhyggjum og mikil andstaða sé við það meðal þjóðarinnar.“

Í þessum orðum felst sama firring og í öllu öðru hjá miðflokksmönum. Allir sem setið hafa í stjórnum eða nefndum vita að varla er unnt að sýna slíkum hópum meira virðingarleysi en að sækja ekki fundi en koma síðan eftir að afgreiðslu máls er lokið í stjórninni eða nefndinni og láta eins og málið hefði átt að vinna á annan veg. Þá er það venja í þingnefndum að óski nefndarmaður eftir að einhver komi á fund nefndarinnar er orðið við þeirri ósk.

Núverandi forystumenn Miðflokksins hafa alla tíð sýnt efnislegum þáttum O3-málsins tómlæti. Í tíð Gunnars Braga sem utanríkisráðherra, 2013 til 2016, átti hann kost á að láta sækja fundi í sérfræðingahópum ESB og lagasetningarnefndum ESB og koma gagnrýnum sjónarmiðum sínum á framfæri. Þess í stað átti hann aðild að flýtimeðferð á hluta O3 með samþykkt laga 28. maí 2015.