Finnar seinka skóladegi
Leiðir til að auka vellíðan og árangur í skólum eru af margvíslegum toga. Æskilegt er að tvinna þetta sem best saman.
Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Seljaskóla, er nýr formaður Kennarasambands Íslands. Hann segir í Morgunblaðinu í dag (15. nóv.) að hann hafi kynnt sér fræðslumál víða erlendis og ráði af því að skólastarf hér á Íslandi sé í mörgu tilliti „ansi gott“. Það sé þó ekki unnt að líta fram hjá því „að þriðjungur drengja geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskólans“ . Þá hafi hann miklar áhyggjur eftir sjö ára starf í Seljaskóla „af líðan stúlkan á mið- og unglingastigi skólans “ þar þurfi að bregðast við. Þá sé umhverfi skóla mjög ólíkt og í Breiðholtinu sé til dæmis mikill fjöldi nemenda af erlendum uppruna og mikilvægt sé að koma sem best til móts við þá krakka. Magnús Þór vill líka halda því til haga að í mörgu tilliti séu Íslendingar að gera góða hluti. „Atvinnulífið snýst, aldrei hafa fleiri farið í háskólanám, við eigum framúrskarandi fólk í vísindastarfi og íþróttum og svo mætti áfram telja. Samkvæmt þessu er margt gott í skólamálum á Íslandi,“ segir hann.
Á í mars 2021 samþykkti
alþingi menntastefnu til ársins 2030. Fyrsta aðgerðaáætlunin á grundvelli þessarar
stefnu var birt 28. september 2021. Þar eru 9 meginaðgerðir tilgreindar sem snerta
fimm meginatriði menntastefnunnar: (1) jöfn tækifæri fyrir alla, (2) kennslu í
fremstu röð, (3) hæfni fyrir framtíðina, (4) vellíðan í öndvegi og (5) gæði í
forgrunni.
Menntastefnan var unnin undir handarjaðri OECD, efnahags- og framfarastofnunarinnar í París. Að baki stefnunni er umfangsmikið samráð og greiningarvinna allt frá árinu 2018. Það ár var síðasta PISA-könnunin (Programme for International Student Assessment) gerð á vegum OECD. Ný könnun átti að fara fram í ár en var frestað til 2022 vegna heimsfaraldursins, þar verður höfuðáhersla lögð á að kanna stærðfræðikunnáttu 15 ára unglinga.
Þjálfun í að taka próf skiptir máli þegar kemur að þátttöku í PISA-könnunum ekki síður en þekking á því námsefni sem um er að ræða. Þá hvetur PISA-samstarfið einnig til þess að skólar og þjóðir hafi þrek til að horfast í augu við eigin stöðu í samanburði við aðra. Hvorugt fer hátt í opinberum umræðum um íslensk menntamál, að próf og einkunnir skipti máli og að upplýsingar séu birtar sem auðveldi samanburð á milli skóla.
Reglulega verða hér umræður um hvíldar- og svefntíma nemenda í skólum. Sumir sérfræðingar telja jafnvel nauðsynlegt að allt þjóðfélagið lagi sig að breytingu á klukkunni til að vellíðan aukist á þessu mikilvæga sviði.
Draga má í efa hvort svo stórt skref þurfi að stíga vegna þessa, hvort ekki sé nær að huga að upphafi skóladags og kennslustunda.
Finnar standa sig almennt vel í PISA-könnunum og oft er þess vegna litið til Finnlands þegar hugað er að umbótum í menntamálum. Finnska ríkisútvarpið YLE birtir í dag (15. nóv.) frétt um að skóladagurinn hefjist sjaldan klukkan 08.00 í finnsku borgunum Helsinki, Turku og Tampere. Á þessum vetri hafi verið ákveðið að seinka upphafi kennslustunda í framhaldsskólum eftir áralangar umræður um málið. Í flestum tilvikum sé um 15 til 30 mínútna seinkun að ræða. Í Turku sé gerð tilraun með að hefja ekki kennslu fyrr en 08.30.
Jussi Paavola, fræðslustjóri framhaldsskóla í borginni, segir að foreldrar og nemendur hafi óskað eftir breytingu í þessa átt. Þá segir hann rannsóknir sýna að unglingum gagnist að fá að sofa lengur á morgnana. Tilraunin mælist vel fyrir.
Í Tampere var ákveðið að hefja skólastarf kl. 08.15 bæði til að koma til móts við svefnþörfina og einnig til að minnka umferðarálagið með því að dreifa því.
Það er á valdi stjórnenda einstakra skóla í Helsinki að ákveða hvenær kennsla hefst á morgnana. Þar hefst kennsla í sumum skólum ekki fyrr en 09.00. Finnskar rannsóknir sýna að um 20% ungra Finna glímir við svefnvandamál.
Leiðir til að auka vellíðan og árangur í skólum eru af margvíslegum toga. Æskilegt er að tvinna þetta sem best saman án þess að slá af aga og kröfum sem gera verður til að allir fái notið sín í nútíma samfélagi.