26.2.2022 10:57

Finnar og Svíar komi í NATO

Allir þessir atburðir og afleiðingar þeirra standa okkur Íslendingum nær en þeir vilja vera láta sem haldnir eru Pútin-heilkenninu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tóku þátt í ríkisoddvitafundi NATO föstudaginn 25. febrúar. Fjarfundurinn var boðaður í skyndi vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Fordæmingin á ofríki Rússa er skýr og afdráttarlaus eins og stuðningurinn við Úkraínumenn og stjórn þeirra. Sjá yfirlýsingu fundarins.

Undanfarna daga hefur Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, ítrekað bent á að nú hafi orðið vatnaskil í öryggismálum Evrópu og heimsins alls. Sérfræðingar og fréttaskýrendur segja að Pútin hafi dregið nýtt járntjald í Evrópu. Járntjaldið milli austurs og vesturs frá lokum fimmta áratugar síðustu aldar fram til 1989 þegar Berlínarmúrinn hrundi var tákngervingur kalda stríðsins. Í rúm 30 ár höfum við búið við aðrar aðstæður í alþjóðamálum þar sem vonin um að samstarf milli þjóða á grundvelli virðingar fyrir alþjóðalögum og reglum legði grunn að varanlegum friði. Að þessu öllu var vegið mánudaginn 21. febrúar þegar Vladimir Pútin Rússlandsforseti gaf fyrirmæli um innrás í Úkraínu.

220225b-003_rdax_775x727sFrá NATO-fjarfundi ríkisoddvita föstudaginn 25. febrúar.

Að Jens Stoltenberg byði ríkisoddvitum Finna og Svía að sitja fjarfund NATO 25. febrúar varð til þess að Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, hótaði norrænu þjóðunum og sagði að það hefði alvarlegar hernaðarlegar og stjórnmálalegar afleiðingar leiddi stríðið í Úkraínu til þess að þær sæktu um aðild að NATO.

Í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu leituðust Rússar við að réttlæta hana með því að þeir fengju ekki tryggingu fyrir að Úkraína yrði aldrei aðili að NATO. Þeir vildu með öðrum orðum takmarka fullveldi Úkraínumanna til að ráða gæslu eigin öryggishagsmuna á þann veg sem þeir teldu sjálfir skynsamlegt. Sama vald vilja Rússar gagnvart Svíum og Finnum.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svía, efndi til blaðamannafundar eftir NATO-fundinn og sagði sænsku afstöðuna skýra, Svíar tækju sjálfir ákvörðun um stefnu sína í öryggismálum.

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, efndi einnig til blaðamannafundar eftir NATO-fundinn. Hann sagði ummæli Rússa „ekki ný“ þó þau þættu „dramatísk“ núna í ljósi átakanna í Úkraínu. Pútin hefði talað í þessa veru í heimsókn til Finnlands árið 2016 og síðan Sergeij Lavrov utanríkisráðherra nú í janúar 2022.

„Ég sé enga breytingu,“ sagði Finnlandsforseti. Hann hefði ekki minnst á NATO-aðild Finna á fjarfundinum enda hefðu menn rætt þar um Úkraínu og viðbrögð við hegðun Rússa. Það lægi hins vegar fyrir að innan NATO þætti mönnum samstarfið við Finna og Svía mikilvægt.

Allir þessir atburðir og afleiðingar þeirra standa okkur Íslendingum nær en þeir vilja vera láta sem haldnir eru Pútin-heilkenninu og tala eins og unnt sé að stöðva rússneska herinn með efnahagsþvingunum. Þau eru úrræði sem valda Rússum erfiðleikum í bráð og lengd. Eina sem megnar að stöðva her í stríði er öflugri her.

Nú hafa verið teknar ákvarðanir innan NATO um að auka varnarmáttinn í austurhluta bandalagsins í Evrópu. Finnar of Svíar eru betur settir innan NATO en utan. Þeir eiga að stíga skrefið inn í varnarbandalagið sér til öryggis.