8.1.2020 10:32

Fífldirfska í stað ferðaþjónustu

Allir anda léttar yfir að lífsbjörg varð við Langjökul að þessu sinni þótt teflt hafi verið á tæpasta vað af skipuleggjendum vélsleðaferðarinnar. Hvers vegna tóku þeir þessa áhættu?

Á vefsíðunni visir.is segir að það sé fyrirtækið Mountaineers of Icleand sem stóð fyrir því þriðjudaginn 7. janúar kl. 13 að fara með 39 manna hóp ferðamanna í vélsleðaferð á Langjökul. Um klukkan 20.00 að kvöldi þriðjudagsins voru um 300 manns og 57 tæki björgunarsveita á Suður- og Suðvesturlandi send á vettvang til að bjarga fólkinu sem hafði grafið sig í fönn ef marka mátti fréttir þá um kvöldið.

1182012Slysavarnafélagið Landsbjörg sendi þessa mynd frá sér aðfaranótt 8. janúar og sýnir hún björgunarmenn að störfum við Langjökul.

Virkjuð var aðgerðastjórn lögreglustjórans á Suðurlandi ásamt samhæfingarstöð ríkislögreglustjóra í Skógarhlíð í Reykjavík. Fjöldahjálparstöð var opnuð í Gullfosskaffi þar sem lögregla, heilbrigðisstarfsfólk frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og viðbragðshópur fjöldahjálpar hjá Rauða krossinum bjó sig undir að taka á móti fólkinu.

Í fréttum segir að rúmlega 00.30 aðfaranótt miðvikudags 8. janúar, tæpum 12 tímum eftir að ferðin hófst, hafi fyrstu björgunarsveitarmennirnir komið að ferðamönnunum sem voru fastir uppi við Langjökul.

Klukkan 08.00 að morgni miðvikudags 8. janúar, 12 tímum eftir að björgunarsveitir voru virkjaðar, sagði á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi:

„Laust fyrir klukkan 8 komu björgunarsveitir með síðustu ferðamennina í fjöldahjálparstöðina í Gullfosskaffi. Eins og fyrr hefur komið fram er enginn alvarlega slasaður.

Framundan er vinna við að koma fólki á hótel sín. Enn er nokkur fjöldi björgunarmanna á leið af fjöllum. Veður og færð en enn slæmt og tefur það för þeirra.“

Veðurstofa Íslands varaði við slæmu veðri þriðjudaginn 7. janúar. Gul viðvörun gilti og talað var um blindu og hríð á hálendinu, ekkert ferðaveður. Engu að síður var farið með hóp þar sem yngsti þátttakandinn var sex ára upp að eða upp á Langjökul á vélsleðum.

Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og forsvarsmaður samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð, segir að störfum í samhæfingarstöðinni hafi lokið klukkan 04.00 að morgni miðvikudags.

Á mbl.is er Rögnvaldur spurður hvort ferðaþjónustufyrirtækinu hafi ekki mátt vera ljóst að ekkert ferðaveður yrði á svæðinu. Rögnvaldur segist gera ráð fyrir því að atvikið verði rannsakað. „Ég á ekki von á öðru en að lögreglan á Suðurlandi muni rannsaka þetta mál. Eftir því sem ég kemst næst var landið allt undir gulri viðvörun í gær og mér finnst það eitt og sér tilefni til að endurmeta allt svona.“

Á mbl.is er rifjað upp miðvikudaginn 8. janúar að fyrirtækið Mountaineers of Iceland hafi verið dæmt til að greiða 700 þúsund krónur í bætur til ástralskra hjóna vegna verulegs gáleysis leiðsögumanna í ferð á vegum fyrirtækisins í janúar 2017.

Allir anda léttar yfir að lífsbjörg varð við Langjökul að þessu sinni þótt teflt hafi verið á tæpasta vað af skipuleggjendum vélsleðaferðarinnar. Hvers vegna tóku þeir þessa áhættu? Hafa þeir eitthvað sér til málsbóta?