15.9.2021 9:22

Ferlið við landbúnaðarstefnu

Reynsla mín af verkefnum af þessu tagi er að þau verði að nálgast af opnum huga, án þess að telja sér trú um það fyrir fram að maður sé þátttakandi í þeim til að hafa vit fyrir öðrum.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í gær (14. september) tillögur að landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland! sem við Hlédís H. Sveinsdóttir tókum saman með aðstoð Sigurgeirs Þorgeirssonar og Bryndísar Eiríksdóttur eftir samráð við hundruð einstaklinga og hagaðila, framlagningu umræðuskjals í samráðsgátt stjórnarráðsins og fundi um allt land.

Við gerð tillagnanna var stuðst við starf sem Kristján Þór setti af stað snemma á kjörtímabilinu og birtist meðal annars í sviðsmyndagerð undir handarjaðri ráðgjafa KPMG. Nutum við ráða þaðan í upphafi starfs okkar.

Frá öllu þessi ferli er skýrt í 96 bls. riti sem hefur að geyma tillögurnar að landbúnaðarstefnunni auk umræðuskjalsins, útdráttar úr umsögnum á samráðsgátt og frásagnar af fundunum um land allt í byrjun júní 2021. Um tveimur klukkustundum eftir að sagt var frá því að Kristján Þór hefði kynnt tillögurnar í ríkisstjórn setti Ragnar Öndunarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, hins vegar þá athugasemd á Facebook-síðu mína að það teldist til tíðinda „að örfáar persónur“ settust niður og semdu „stefnu fyrir heila atvinnugrein“ sem varðaði um „leið afkomu þúsunda heimila“, stefnumótun væri „fag“ sem notaði „ákveðnar aðferðir“, „sérhæfð ráðgjafarfyrirtæki“ önnuðust leiðsögn og leitað væri til helstu „haghafa“.

Þessi ómaklegu orð eru á skjön við allt ferlið við gerð þessara tillagna að landbúnaðarstefnu. Er óskiljanlegt að maður sem lætur oft að sér kveða í umræðum á opinberum vettvangi skuli gera sig marklausan á þennan hátt. Ragnar hafði einfaldlega ekki kynnt sér efni málsins. Hann „hjólaði í manninn“, okkur sem höfum unnið að þessu máli á skipulegan og markvissan hátt á einu ári.

241882117_4953397298010321_1695423212786591503_nAð kvöldi 13. september sótti ég fundi frambjóðenda sjálfstæðismanna á Hvolsvelli og sagði frá væntanlegri útgáfu ritsins Landbúnaðastefna Ræktumn Ísland! Kristján Þór Júlíusson lagði það fram í ríkisstjórn 14. september 2021.

Í dag 15. september er einmitt eitt ár frá því að Kristján Þór Júlíusson skrifaði undir bréfið þar sem hann fól okkur Hlédísi þetta vandasama og ábyrgðarfulla verkefni. Við komum úr ólíkum áttum og höfðum ekki starfað saman áður.

Reynsla mín af verkefnum af þessu tagi er að þau verði að nálgast af opnum huga, án þess að telja sér trú um það fyrir fram að maður sé þátttakandi í þeim til að hafa vit fyrir öðrum. Galdurinn felst í að hlusta, læra og draga ályktanir sem síðan er leitast við að koma þannig í orð að öðrum sé skiljanlegt. Þannig var þetta verkefni unnið og um vinnubrögð okkar Hlédísar eiga alls ekki við þau orð að þar hafi örfáar persónur sest niður til að ráðskast með hag annarra. Þetta kann að tíðkast í fjármála- og bankaheimi Ragnars Önundarsonar en réð ekki okkar ferð.

Raunar kom það mér á óvart að almenna bankakerfið er óliðlegt við bændur. Bóndi hafði árangurslaust leitað eftir láni til nýjunga í búrekstrinum. Hann leit inn hjá bílasala á heimleið. Þá var honum sagt að með einu símtali í banka væri unnt að fá stórlán til bílakaupa!

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér það sem við höfum til málanna að leggja geta gert það með því að fara inn á vefsíðu atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins hér.