13.5.2020 12:36

Ferðalög í sjónmáli

Sú spurning vaknar þegar menn fikra sig áfram á þeirri braut sem nú opnast hve lengi stjórnvöld fara að ráðum sóttvarnafræðinga.

Tilkynnt var í gær (13. maí) að frá um með föstudeginum 15. maí taki sóttvarnalæknir Grænland og Færeyjar af lista þeirra landa sem skilgreind eru sem há-áhættusvæði. Þar með gilda engar „sóttvarnalegar takmarkanir “ á ferðum fólks milli landanna frá 15. maí næstkomandi.

Ferðafrelsið af Íslands hálfu milli eylandanna á Norður-Atlantshafi eykst enda hefur þeim tekist vel að hafa hemil á COVID-19-faraldrinum. Hvort ferðir hefjist milli landanna ræðst af ákvörðunum danskra yfirvalda. Þau lokuðu landamærum danska ríkisins 14. mars. Í fyrri viku fengu íslensk hjón ekki að fara í land í Þórshöfn í Fæeeyjum þegar þau komu þangað með Norrænu.

Þrýst er á dönsk stjórnvöld að opna landamæri sín. Þar eru Þjóðverjar fremstir í flokki. Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, fór þess í dag (13. maí) á leit við dönsk stjórnvöld að frá og 15. maí yrðu landamæri Danmerkur og Þýskalands opnuð. Þjóðverjar hafa þegar samið við Frakka, Svisslendinga og Austurríkismenn um að opna landamærin gagnvart þeim.

Þá sagði Seehofer einnig á blaðamannafundinum miðvikudaginn 13. maí að Þjóðverjar vildu að frjáls för yrði milli allra Schengen-landa frá og með 15. júní. Þetta er sami dagurinn og ríkisstjórnin hefur ákveðið að opna Ísland að nýju með skilyrðum sem kynnt voru í gær.

Hér hefur landamærum aldrei verið lokað fyrir ríkisborgurum Schengen-ríkja og Bretlands. Ísland er hins vegar lokað fyrir borgurum annarra landa. Frá og með 19. mars urðu Íslendingar að fara í tveggja vikna sóttkví við komu til landsins og aðrir frá 24. apríl.

53420989_303Landamæri Þýskalands verða opnuð 15. júní,  sama dag og nýjar reglur taka gildi hér við komu til Keflavíkurflugvallar.

Íslendingar eru í raun í sömu sporum gagnvart Dönum og Þjóðverjar. Ef ekki verður slakað á lokun landamæra danska ríkjasambandsins skiptir í raun engu þótt opnað sé héðan á ferðir til Grænlands og Færeyja og engar „sóttvarnalegar takmarkanir“ gildi af Íslands hálfu gagnvart þeim. Icelandair hefur haldið úti auglýstu áætlunarflugi til Stokkhólms, London og Boston undanfarnar vikur og þar gilda sóttvarnareglur.

Sú spurning vaknar þegar menn fikra sig áfram á þeirri braut sem nú opnast hve lengi stjórnvöld fara að ráðum sóttvarnafræðinga. Hér hefur þeim verið fylgt í einu og öllu og áfram er mælt með tveggja metra reglu, handþvotti og takmörkun á mannfjölda. Hve lengi verður þessum ráðum fylgt? Læknar mæla með heilbrigðu líferni án þess að endilega sé eftir þeim ráðum farið. Hvar eru mörkin gagnvart COVID-19?

Það er auðveldara að ná eyrum fólks með varnaðarorðum þegar faraldshætta er í vændum eða barist er við hana með öndunarvélum og á gjörgæsludeildum en þegar hún er á undanhaldi og finnst ekki lengur. Bent er á að önnur bylgja komi, hún verði hættulegri, ekki megi draga andann léttar fyrr en bóluefni hafi fundist. Allt er þetta satt og rétt en um leið og unnt er að draga andann léttar gera menn það bæði í orðsins fyllstu merkingu og óbeint.

Áfram ber að virða þekkingu og ábendingar lækna en nú reynir verulega á færni og ábyrgð stjórnmálamanna. Þeir hafa tekið að sér að láta skrúfur þjóðarskútunnar snúast.