Fer tæknilestin fer fram hjá okkur?
Arnþór sagði kapphlaup vitvélanna hafið og heiminum yrði aftur skipt upp í „þróunarríki“ sem sætu miðalaus eftir á brautarpallinum og lönd sem fengju sæti í tæknilestinni sem lögð væri af stað.
Frá því var greint í Viðskiptablaðinu 8. október að föstudaginn 3. október hefði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar verið harðorður á fundi undir yfirskriftinni: Er gervigreindin alvöru tækifæri fyrir Ísland?
Hörður hefði rætt „óvenju opinskátt um að fámennur hópur í landinu [hefði] stöðvað orkuöflun í tíð fyrri ríkisstjórnar“. Í pallborðsumræðum hefði hann velt fyrir sér hvernig við hefðum komið okkur í þessa stöðu og hverjir hefðu stjórnað því.
Forstjórinn lýsti raforku sem súrefni samfélagsins, skortur á henni hægði á öllu gangverki þess. Til þessa hefðu ríkisstjórnir skort „einhvern orkuöflunarvilja“, batt hann vonir við að sú stjórn sem nú situr sýndi slíkan vilja. Það hefði skort einhverja sýn á það hvað samfélagið þyrfti af orku. Þá hefur Viðskiptablaðið eftir Herði:
„Og við náttúrulega erum bara búin að koma okkur í þá stöðu sem er alveg ótrúlegt, að næstu fjögur, fimm árin er bara takmörkuð orka á koma inn á kerfið. Og orka er að takmarka hagvöxt, eða skortur á orku er að takmarka hagvöxt og lífskjör á Íslandi.“
Þessi lýsing er ekki líkleg til að laða gagnaver eða önnur orkufrek fyrirtæki til landsins. Arnþór Jónsson, sem var á sínum tíma brautryðjandi við kynningu á Internetinu hér á landi, sagði fyrir nokkrum vikum á FB-síðu sinni:
„Hér á Íslandi gætum við byggt... risagagnaver og tryggt með því sjálfbærni þjóðarinnar í stafrænum heimi framtíðarinnar. Þekkingin er ínáanleg eða til staðar og orkuna getum við framleitt á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Slík þjóðareign væri besta gjöf núlifandi kynslóða til afkomenda sinna.“
Arnþór sagði kapphlaup vitvélanna hafið og heiminum yrði aftur skipt upp í „þróunarríki“ sem sætu miðalaus eftir á brautarpallinum og lönd sem fengju sæti í tæknilestinni sem lögð væri af stað.

Svarið við spurningu Harðar Arnarsonar er borðleggjandi og það er bráðnauðsynlegt til fróðleiks fyrir stjórnmálamenn að það sé tekið saman í skýrslu. Það eru fyrst og síðast pólitískar ákvarðanir sem ráðið hafa þessari ferð.
Með lögum og reglum hafa verið lagðar leiðir fyrir fámenna en áhrifamikla hópa til að setja stein í götu þeirra sem hafa viljað halda áfram á orkuvinnslubrautinni. Veittar eru lögheimildir til að hefta hvert skref. Sé stofnað til samráðsvettvangs í því skyni að tryggja að einhver hafi alla þræði í hendi sér svo haldið sé áfram er honum snúið í andhverfu sína.
Vinstri græn eru pólitískt andstöðuafl við orkuöflun og innan raða flokksins hefur Landvernd, áhugamannahópur gegn virkjunum, ráðið ferðinni. Nú þegar flokkurinn á ekki lengur fulltrúa á alþingi gefst einstakt tækifæri til að vinda ofan af opinbera regluverkinu og skapa nauðsynlegt svigrúm eða andrými til að leggja grunn að nýrri orkustefnu.
Fyrst og síðast þarf að ríkja stórhugur og vilji til framkvæmda. Menn ættu að lesa bækur eins og sögu Landsvirkjunar eða endurminningar dr. Jóhannesar Nordal til að átta sig á að ekkert gerist án gífurlegs undirbúnings, góðra raka og kynningar þungavigtarmanna í krafti öflugra fjölmiðla. Skortir þetta?