9.12.2025 10:52

Fellur á Silfrið

Skólameistaramálið og blótsyrði þingforseta voru ásamt RÚV og Júróvisjón lögð til hliðar í Silfrinu. Þeim á ekki að halda að hlustendum.

Ef Silfur ríkisútvarpsins á að bregða ljósi á það sem efst ber í stjórnmálum verður stjórn umræðna að vera markvissari en mánudagskvöldið 8. desember.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir fékk Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í einkaviðtal í fyrri hluta þáttarins. Átti að ræða stöðu mála í ljósi þjóðaröryggisstefnunnar sem stjórn Trumps birti fimmtudaginn 4. des.

Í upphafi fékk ráðherrann þó tækifæri til að segja frá för sinni til Seyðisfjarðar sunnudaginn 8. desember þar sem flokkur ráðherrans, Viðreisn, efndi til fundar sem varpaði ljósi á svik ríkisstjórnarinnar á gömlu fyrirheiti um Fjarðarheiðargöng, það er milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða.

Hvort sem Þorgerður Katrín ræddi um göng eða utanríkismál var erfitt að átta sig á skoðun hennar. Óskiljanlegt er ef hún telur Íslendingum til farsældar í öryggis- og varnarmálum að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á sama tíma og stjórnvöld í Washington telja það á fallanda fæti og því verði jafnvel ekki lengur treystandi vegna innri veikleika.

Miðað við áhuga fréttastofu ríkisins á Júróvisjón og þá skoðun Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra að alþingi og utanríkisráðherra eigi að ákveða hvort Ísland taki þátt í keppninni var undarlegt að stjórnandi Silfursins leitaði ekki álits ráðherrans á því máli.

Screenshot-2025-12-09-at-10.49.17Í Morgunblaðinu 9. desember segir frá atbeina Eyjólfs Ármannssonar að athugun á göngum til að geta sett þau í forgang. Flokkur fólksins lætur ekki að sér hæða.

Í seinni hluta þáttarins voru gestirnir Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri þingflokks Flokks fólksins, Hildur Þórisdóttir í sveitarstjórn Múlaþings og Stefán Pálsson sagnfræðingur, varaborgarfulltrúi VG. Umræðurnar snerust nær eingöngu um samgönguáætlun og jarðgöng.

Hildur hélt vel á efninu og áréttaði að ekki hefði aðeins verið horfið frá Fjarðarheiðargöngum með svikum heldur hefði með áætluninni verið brotið gegn samkomulagi allra sveitarfélaga á Austurlandi um forgangsröðun ganga þar með því að setja Fjarðagöng úr Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar ofar á lista en Fjarðarheiðargöng.

Þeir rifust harkalega Heimir Már og Stefán en fréttastofa ríkisins gætir þess af kostgæfni að rödd VG heyrist hvað sem líður höfnun kjósenda á flokknum. Heimir Már tók stjórn þáttarins til sín og gerði hróp að Stefáni.

Það er örþrifaráð Flokks fólksins að senda Heimi Má í þætti fyrir sína hönd. Hann kann að slá um sig og verja þannig vondan málstað. Stefán hafði hins vegar betur í orrahríðinni.

Vissulega bar samgönguáætlun hátt í liðinni viku. Hún verður þó til umræðu áfram. Í vikunni bar hins vegar önnur mál einnig hátt. Stjórnandi þáttarins hefði átt að taka þau fyrir: aðförina að skólameistara Borgarholtsskóla og blótsyrðin sem Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti lét falla um stjórnarandstöðuna í þingsalnum.

Skólameistaramálið og blótsyrði þingforseta voru ásamt RÚV og Júróvisjón lögð til hliðar í Silfrinu. Þeim á ekki að halda að hlustendum. Engir stjórnmálafræðingar eru kallaðir á vettvang. Hefði það ekki verið gert ef sjálfstæðismenn ættu hlut að máli? Flokkspólitískt fréttamat í Efstaleiti rúmar ekki frásagnir af vandræðamálunum í fangi forsætisráðherrans.