Fáviska borgarstjóra
Hitt er síðan bábilja að það yrði til þess að skaða Öskuhlíðina að grisja þennan skóg sem jafnan er mannlaus og opna svæðið þess í stað fyrir birtu og mannvist með nýjum gróðri og aðstöðu til útiveru.
Algjört samskiptaleysi ríkir milli kjörinna stjórnenda borgarinnar og þeirra sem taka á móti erindum frá almenningi eða opinberum stofnunum. Raunar er ekki aðeins kjörnum fulltrúum haldið óupplýstum heldur vita þeir sem svara í síma fyrir embættismenn borgarinnar ekki númer þeirra sem um er beðið. Fyrir rúmum mánuði tilkynnti umboðsmaður alþingis að embætti sitt kynni að hefja frumkvæðisathugun á skipulagi símsvörunnar hjá borginni.
Dæmi um þetta samskiptaleysi blasir við þegar fylgst er með viðbrögðum kjörinna fulltrúa meirihluta borgarstjórnar í umræðum um vöruhúsið sem reist var á lóð fyrir milljarð við Álfabakka án þess að nokkur axli pólitíska ábyrgð. Af ummælum píratans sem situr í formennsku skipulags- og umhverfisnefndar borgarinnar má helst ætla að það hafi verið í verkahring nágranna Álfabakka 2 að upplýsa sig um hvað var að gerast á lóðinni dýru.
Sumar í Öskjuhlíð.
Á vefsíðunni Vísi var föstudaginn 10. janúar skýrt frá því að samgöngustofa hefði tilkynnt ISAVIA að loka skyldi annarri tveggja flugbrauta Reykjavíkurflugvallar þar sem Reykjavíkurborg hefði ekki fellt tré í Öskjuhlíð sem ógnuðu flugöryggi á brautinni.
Blaðamenn Vísis leituðu til Einars Þorsteinssonar borgarstjóra sem sagði málið snúast um að krafist væri að fjarlægð yrðu 1.400 tré. „Ég hef ekki fengið neitt formlegt erindi um að fella þessi tré,“ sagði borgarstjóri. Hann segir að yrðu 1.400 tré felld myndi það „rjúfa mjög ljótt skarð í þetta fallega græna svæði“ í Öskjuhlíð. Þetta væri stór ákvörðun og þau yrðu að standa rétt að málum. Upphaflega hefði ISAVIA viljað fella 3.000 tré, nú væru þau 1.400.
„Aðallega finnst mér æðibunugangurinn í þessari stjórnsýslu koma á óvart. Að tilkynna um það að flugbraut verði lokað og okkur hefur ekki gefist tækifæri til að eiga við þau samtal um þetta mál,“ sagði borgarstjóri nú 10. janúar 2025.
Staðreynd málsins er að það er síður en svo um nokkurn „æðibunugang“ að ræða.
ISAVIA sendi Reykjavíkurborg minnisblað 6. júlí 2023 sem ber fyrirsögnina: Trjágróður í Öskjuhlíð – óásættanleg hætta fyrir loftför. Þar er minnt á að það sé hlutverk ISAVIA að vakta hættu vegna trjágróðurs og vara viðeigandi landeigendur við, svo þeir geti brugðist við og sinnt skyldum sínum. Þetta hefur margsinnis verið áréttað síðan og í september árið 2024 rann út frestur sem samgöngustofa setti borgaryfirvöldum til að sinna skyldum sínum. Langlundargeð þeirra sem öryggis gæta er í raun undravert í þessu máli.
Í minnisblaðinu frá júlí 2023 eru nefndar tvær lausnir, önnur nær til 2.900 trjáa og hin til 1.200 trjáa. Rök eru færð fyrir báðum lausnum auk þess sýnir kort það sem um er rætt. Það eru hrein ósannindi borgarstjóra að flugöryggisbeiðnin hafi ekki verið rökstudd og um hana rætt. Gott ef Dagur B. sagði ekki að málið færi í umhverfismat.
Hitt er síðan bábilja að það yrði til þess að skaða Öskuhlíðina að grisja þennan skóg sem jafnan er mannlaus og opna svæðið þess í stað fyrir birtu og mannvist með nýjum gróðri og aðstöðu til útiveru. Að grisja myrkviðið í Öskjuhlíð samræmist ekki þéttingarstefnu meirihlutans og ótta hans við sólarljósið.