24.4.2023 4:40

Farið um rústir Pompeii

Það er ekki hægt að koma til Napólí án þess að gefa sér tíma til að skoða rústir Pompeii skammt fyrir utan borgina

Það er ekki hægt að koma til Napólí án þess að gefa sér tíma til að skoða rústir Pompeii skammt fyrir utan borgina. Í eldgosi í Vesúvíusi árið 79 hvarf Pompeii í ösku, en bærinn stóð í um 8 km fjarlægð frá eldfjallinu í um 40 m hæð yfir sjávarmáli. Öskulagið var fjórir til sex metra þykkt.

Fjölmargir skipuleggja ferðir frá Napólí til Pompeii bæði með leiðsögn og án hennar. Ferðin tekur 41 mínútu frá brautarstöðinni í Napolí til brautarstöðvar við innganginn á svæðið þar sem skoða má Pompeii-rústirnar. Þær hafa verið hreinsaðar og ítarlega rannsakaðar. Í boði er að panta tveggja tíma leiðsögn hjá fornleifafræðingi.

Sunnudaginn 23. apríl  vorum við tvö í rúman klukkutíma með rútu og fórum um hluta sýningarsvæðisins án leiðsögumanns. Við skráðum okkur inn á fornleifasvæðið á netinu til að skip the line eins og sagt er máli ferðafræðinga, það er að komast hjá því að bíða í röð við miðasöluna. Raðirnar við Pompeii geta oft verið langar enda er um einn vinsælasta ferðamannastað Ítalíu að ræða. Ár hvert heimsækja um 2,5 milljónir gesta Pompeii-rústirnar sem auðvitað eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Rústirnar bera með sér að um 11.000 íbúar Pompeii hafi verið vel stæðir árið 79. Þar má sjá leifar af glæsilegum opinberum byggingum og vel búnum heimilum. Byggingarnar voru ríkulega skreyttar.

Á öldum áður stóð Pompeii við strönd Miðjarðarhafsins en nú eru 700 m frá rústunum til sjávar.

Rústasvæðið er 64 til 67 hektarar. Að skoða það allt og nákvæmlega tekur því langan tíma en sé haldið vel áfram í rúma tvo klukkutíma má átta sig á hve einstakar þessar heimsminjar eru og á harmleiknum sem þarna varð 79 e. Kr.

IMG_6960IMG_6955

.Það eru 8 km frá Vesúvúsi til Pompeii. Öskulagið sem lagðist yfir bæinn 79 e. Kr. var 4 til 6 m þykkt.

IMG_6957_1682265133792Um 2,5 milljónir koma ár hvert og skoða rústirnar.

IMG_6959

Mósaik í gólfi er til marks um að auðugir íbúar Pompeii vildu njóta listar.

IMG_6976

Breiðstræti fyrir tæpum 2000 árum. Myndin er tekin úr turni sem kann að hafa verið reistur til að fylgjast með skipaferðum en Pompeii stóð við Miðjarðarhaf þótt nú séu 700 m niður að strönd.

IMG_6969

Unga stúlkan  horfir yfir hluta rústanna úr turninum..


IMG_6980Við enda basilikunnar stóðu þessar voldugu súlur til marks um vald þeirra sem störfuðu í skjóli þeirra.