29.3.2020 10:21

Farið eftir bókinni á Íslandi

Séu þessi þrjú atriði sem hér eru nefnd skoðuð í ljósi þess hvernig íslensk yfirvöld hafa brugðist við þessari hlið faraldursins má segja að allt sé gert eftir bókinni.

Sérkennilegt er á þessum sunnudagsmorgni (29. mars) að það skuli þykja frétt að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákveði að setja ekki New York í sóttkví. Það sýnir aðeins hve Trump er iðinn við að halda sjálfum sér í sviðsljósinu vegna kórónaveirunnar. Hann gaf til kynna laugardaginn 28. mars að ef til vill yrði New York sett í sóttkví en batt síðan enda á vangaveltur um það á Twitter nokkrum klukkustundum síðar.

Andrew Cuomo, ríkisstjórn í New York, brást illa við hugmynd forsetans og sagði hana „stríðsyfirlýsingu“. Þetta var kannski aldrei annað en hugdetta vegna athyglisýki.

China-health-virusSkimun er talin besta leiðin til að hafa hemil á útbreiðslu veirunnar.

Á bandarísku vefsíðunni Axios sagði laugardaginn 28. mars að ekki mætti gleyma hvað gera ætti í aðstæðum sem þessum þótt bandarísk yfirvöld hefðu ekki gert það að þessu sinni, alltaf mætti læra:

  • 1. lærdómur: leiðbeiningarnar um skimun skila árangri.
  • Fyrsta reglan er að skima og leita að fólki sem kann að vera veikt, rekja hverja það hefur hitt til að finna aðra sem kunna að vera smitaðir, skima það fólk og halda þessu áfram.
  • 2. lærdómur: tæknin kemur að notum.
  • Í Singapúr voru farsímar notaðir til að staðsetja fólk sem átti á hættu að smitast. Á Tævan nýttu yfirvöld sé gagnagrunn sem þau áttu. Með þessum tveimur aðferðum var auðveldara en ella að fara eftir leiðbeiningunum um skimun. Axios segir að Singapúr-aðferðin sé líklega illa séð af Bandaríkjunum vegna andúðar á „stóra bróður“. Stíga mætti svipað skref með því að fólk hefði frjálst val um þátttöku í slíku eftirliti.
  • 3. lærdómur: miðlun skiptir máli.
  • Á Ítalíu misheppnaðist stjórnvöldum að miðla upplýsingum til almennings. Trump forseti hefur skapað vandræði með yfirlýsingum sínum. Fyrst gerði hann lítið úr veirunni og sagði hana mundu hverfa af sjálfri sér áður en hann breytti um tón vegna þess hvernig faraldurinn þróaðist. Gagnstæðar yfirlýsingar Trumps um sóttkví New York eru aðeins nýjasta dæmið um hve illa hann heldur á miðlun upplýsinga.

Séu þessi þrjú atriði sem hér eru nefnd skoðuð í ljósi þess hvernig íslensk yfirvöld hafa brugðist við þessari hlið faraldursins má segja að allt sé gert eftir bókinni: (1) Lögð er áhersla á skimun og rakningu. (2) Hugað er að notkun farsíma með frjálsri þátttöku almennings. (3) Vel og skipulega er staðið að miðlun upplýsinga og áhersla lögð á samfellu í aðgerðum.

Eins og venjulega koma sjálfskipaðir sérfræðingar fram á völlinn og viðra sjónarmið um að aðrar leiðir skuli farnar en hafa verið ákveðnar. Það skapar nauðsynlegar umræður en breytir ekki hinu að meginstefnan er rétt og þeim ber að þakka sem móta hana og kynna á ábyrgan og málefnalegan hátt.