13.12.2020 10:23

Farandfólki fjölgar á Kanaríeyjum

AFP segir yfirvöld á eyjunum ráðþrota gagnvart þessari bylgju farandfólks og spenna aukist.

Sami vandi blasir við á Kanaríeyjum og öðrum ferðamannastöðum, viðskipti hafa hrunið vegna farsóttarinnar. Þau eru 86,7% minni nú en árið 2019. Á eyjunum bætist síðan við nýtt vandamál sem veldur þeim áhyggjum sem reka þar ferðaþjónustu, megi marka fréttir. Farandfólki frá vesturströnd Afríku hefur stórfjölgað. Á vefsíðunni Local var haft eftir AFP-fréttastofunni undir lok nóvember að frá því í september hefði 12.000 aðkomumenn (e. migrants) komið til Kanaríeyja án þess að eiga þar gistingu eða nokkurn samastað. Allar stöðvar fyrir þetta farandfólk eru ofsetnar. Menn búa sig undir að um áramót nálgist heildartalan 18.000 til 20.000, tíu sinnum fleiri en árið 2019. Mörgum er komið fyrir í hótelum eða íbúðum fyrir ferðafólk.

AFP segir yfirvöld á eyjunum ráðþrota gagnvart þessari bylgju farandfólks og spenna aukist þar sem þeir sem veiti ferðaþjónustu telji fréttir og frásagnir af þróun mála „spilla ímynd“ eyjanna.

Vitnað er í kráareiganda í bænum Puerto Rico sem segir að einn viðskiptavina sinna ætli að fara í mál við ferðaskrifstofu sína. Hún hafi aldrei upplýst hann um að ekki væri unnt að þverfóta í Puerto Rico fyrir farandfólki. Hann hafi farið á ströndina og þar hafi fólkið verið í 15 til 20 manna hópum án þess að bera grímur. Eftir það hefði hann haldið sig inni á hóteli þar til hann ákvað að stytta dvöl sína og halda heim til sín að nýju.

Í fréttinni segir að á þessum tíma sé um 25° hiti í Puerto Rico og þar séu venjulega um 25.000 ferðamenn, flestir frá Norðurlöndunum. Við klettaströndina sem snúi í áttina að Marokkó séu nú engir ferðamenn en um 1.500 af farandfólkinu séu þar í hótelum.

5e8ae5f5b6982394efe2b11e8ebc3f1bfed4dec30a6577514308894e87ccc0ceSpenna myndast milli farandfólks og ferðamanna á Kanaríeyjum.

Á Kanaríeyjum hafa menn áður tekist á við svipaðan vanda. Árið 2006 voru þar um 30.000 óboðnir aðkomumenn frá vesturströnd Afríku. Staðan þá var hins vegar allt önnur en núna þegar farsóttin lamar alla atvinnustarfsemi á eyjunum og vonir eru bundnar við að á skjótan hátt megi blása nýju lífi í ferðaþjónustuna sem myndar 35% af vergri landsframleiðslu Kanaríeyja. Hér nam þessi hlutur 8% árið 2019 og hefur nánast staðið í stað síðan 2016.

Íslenskar ferðaskrifstofur hafa boðið ferðir til Puerto Rico eins og segir í þessari auglýsingu:

„Puerto Rico er afar sjarmerandi og fallegur bær á suðvesturhluta eyjunnar Gran Canaria. Bærinn hefur byggst að mestu leyti upp í kringum smábáthafnirnar, en í dag eru þær tvær og við aðra þeirra er að finna ströndina Playa de Puerto Rico. Þar eru fallegir veitingastaðir við sjóinn og góð sólbaðsaðstaða við himinblátt hafið. Bærinn hefur byggst upp í kringum tvær víkur eða tvo dali og rísa hæðirnar í kring tignarlegar yfir svæðið.“

Fréttir frá Kanaríeyjum eiga erindi inn í jólaundirbúning Íslendinga því að margir eiga þaðan margar minningar frá þessum árstíma þótt fjöldinn sem þangað leitar sé minni en áður að þessu sinni vegna farsóttarinnar.