28.2.2024 19:37

Falsaði viðtal við Ólaf Ragnar

Þetta mál snertir fjölmiðlun hér á landi. Hér hefur hópur íslenskra blaðamanna sem telur sig fórnarlömb réttvísinnar átt í samstarfi við Lasse Skytt.

Lasse Skytt er danskur lausamaður (freelancer) sem hefur skrifað fyrir ýmis blöð á Norðurlöndunum. Hann hefur meðal annars skrifað grein í Journalisten, blað dönsku blaðamannasamtakanna, í samvinnu við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Heimildarinnar, um ofsóknir á hendur íslenskum blaðamönnum og þá sérstaklega Þórði Snæ.

Þá hefur Lasse Skytt fjallað um blaðamannaþátt Samherjamálsins á þann veg að norska blaðið Aftenposten sá ástæðu til að biðja lesendur sína afsökunar á birtingu greinarinnar frá Skytt, hún stæðist ekki þær kröfur Aftenposten.

Þriðjudaginn 27. janúar sagði Journalisten frá því í grein eftir Önnu Sol Jørgensen að Kristeligt Dagblad í Kaupmannahöfn hefði þá afpubliceret, dregið til baka, 14 greinar frá Skytt, Syddansk Universitetsforlag hefði hætt sölu á bók eftir hann á meðan efni hennar yrði rannsakað og sænska Aftonbladet hefði dregið 14 greinar frá Skytt til baka.

Í Journalisten segir að til dæmis hafi Lasse Skytt skrifað langt samtal við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrv. forseta Íslands, fyrir Kristeligt Dagblad. Nú upplýsir ritstjórn blaðsins að þar séu höfð ummæli eftir Ólafi Ragnari sem tekin séu úr greinum í íslenskum og enskum miðlum og séu sumar greinarnar allt að tveggja ára gamlar.

Þá hafi Skytt í einni grein tekið ummæli sem féllu í samtali við bandarísku NPR-útvarpsstöðina og breytt nöfnum og þjóðerni heimildarmanna þegar efnið birtist í Kristeligt Dagblad.

Í Journalisten er rætt við Jeppe Duvå, aðalritstjóra Kristeligt Dagblad, sem segir að Lasse Skytt hafi viðurkennt mistökin.

„Svar hans staðfesti grun okkar um að hér sé um nokkuð umfangsmikinn ritstuld að ræða og það leiðir til þess – sem er í raun óþarfi að segja – að samstarfinu við lausmanninn er lokið,“ segir Jeppe Duvå.

Þá kemur fram að Skytt hafi skrifað 52 greinar í Journalisten og segir Christian Lindhardt aðalritstjóri að hann hafi hafið rannsókn á greinunum.

Screenshot-2024-02-28-at-19.32.26Þórður Snær Júlíusson í samtali við Lasse Skytt í Journalisten 7. ferbrúar 2023. Ritstjórn Journalisten uppfærði greinina 23. febrúar 2024 og sagði „Vi skrev tidligere, at Thórdur Snær Júlíusson og tre andre journalistkolleger fik pludselig uventet besøg i Reykjavík af en gruppe politimænd. Det er nu rettet til, at de blev indkaldt telefonisk til en afhøring.“

Þetta mál snertir fjölmiðlun hér á landi. Hér hefur hópur íslenskra blaðamanna sem telur sig fórnarlömb réttvísinnar átt í samstarfi við Lasse Skytt um að útbreiða ranga mynd af stöðu íslenskra blaðamanna og ala á kenningum um að meiri spilling ríki hér en annars staðar á Norðurlöndunum.

Líklega er það skýrasti mælikvarðinn á að hér sé fjölmiðlun á öðru og verra róli en annars staðar á Norðurlöndunum að ekki skuli grafist skipulega fyrir um hvatann að því að hér sé stofnað til samstarfs við Lasse Skytt til að bregða upp rangri mynd af stöðu fjölmiðlunar.

Það eru ekki sársaukalaus skref fyrir aðalritstjóra norrænna blaða að stíga fram og viðurkenna að hafa látið blekkjast af ritþjófi og hafa tekið þátt í að blekkja lesendur sína með birtingu greina frá honum.

Hér eru það hins vegar ritstjórar og fjölmiðlamenn sem hafa nýtt sér óvönduð vinnubrögð þessa manns í blekkingarskyni. Hneykslið í íslenska fjölmiðlaheiminum verður sífellt undarlegra og alvarlegra.