16.10.2025 11:13

Falleinkunn vegna bensínstöðvalóða

Þarna birtist klassísk lýsing á því þegar geðþótti valdsmanna ræður og þeir hafa öll hlutlæg viðmið að engu. Þetta kann að teljast lögmætt í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

Í Morgunblaðinu í dag (16. október) segir frá því að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar geri alvarlegar athugasemdir við hvernig Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, stóð að ráðstöfun lóða bensínstöðva í anda byggðaþéttingar í Reykjavík. Stefnu sem nú hefur gengið sér til húðar og sætir vaxandi gagnrýni þegar afleiðingar hennar eru metnar hvort heldur frá sjónarhóli arkitekta eða annarra.

Það er kappsmál Dags B. að draga athygli frá afleiðingum brask- og skortsstefnunnar sem hann mótaði í húsnæðismálum höfuðborgarinnar. Hann segir í grein í Morgunblaðinu í dag: „Áhrif hás vaxtastigs og þröngra lántökuskilyrða blasa við og ráða mestu um stöðuna á fasteignamarkaði.“ Fjölmargir sem starfa á þessum markaði mótmæla þessari skoðun. Skortsstefnan ráði mestu um uppsprengt fasteignaverð. Þá spilli fyrir sölu nýrra eigna í Reykjavík að skipulagskröfur taki mið af óvild í garð bíleigenda.

Ráðstöfun bensínstöðvareita við Ægisíðu, Birkimel og Skógarhlíð sætir gagnrýni nágranna. Viðbrögð borgaryfirvalda stuðla ekki að neinum sáttum enda hafa þau annars vegar gengið fram með leynd við samninga um lóðirnar og hins vegar rökstutt hagstæða skilmála við nýja lóðareigendur án minnsta samráðs við nágranna.

1580530-1-Bensínstöðin við Skógarhlíð sést fyrir miðju 85 íbúða þyrpingar án bílastæða ofan jarðar – á milli heilsugæslustöðvar og slökkvistöðar. Tölvuteikning/Nordic Office of Architecture

Í Morgunblaðinu segir að innri endurskoðun borgarinnar telji að framkvæmdin á ráðstöfun bensínstöðvalóðanna hafi verið ómarkviss og skort hafi gagnsæi, undirbúning og formlegar greiningar sem tryggt hefðu hagsmuni borgarinnar og jafnræði aðila. Eitt helsta álitaefni skýrslunnar sé að ekki hafi alltaf verið ljóst hvaða málefnalegu sjónarmið lágu að baki ákvörðunum borgarinnar í samningaviðræðunum við eldsneytissala.

Þarna birtist klassísk lýsing á því þegar geðþótti valdsmanna ræður og þeir hafa öll hlutlæg viðmið að engu. Þetta kann að teljast lögmætt í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar undir forystu þess meirihluta sem þar starfar, í anda Dags B. Eggertssonar, en er að minnsta kosti mjög ámælisvert á alla almenna mælikvarða.

Hér á síðunni hefur nokkrum sinnum birst listi yfir stjórnsýsluleg axarsköft og brot í tíð Dags B. sem borgarstjóra. Tilvikunum fjölgaði svo ört að þrátt fyrir nokkra árvekni tókst ekki að uppfæra listann nógu oft. Slíkt heildstætt syndaregistur ætti að kynna kjósendum rækilega fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí 2026. Það sýnir hve meirihlutanum hefur þótt önugt að þurfa að haga störfum sínum í samræmi við lög og reglur um stjórnsýslu og góða stjórnarhætti.

Lögfræðingurinn Hildur Björnsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn er óþreytandi við að benda á óvandaða stjórn meirihlutans, leyndarhyggju og flækjustig við töku allra ákvarðana. Í stað þess að verjast fer meirihlutinn undan rökstuddum ákúrum Hildar í flæmingi.

Það er undarlegt dragi forráðamenn flokksfélaga sjálfstæðismanna í Reykjavík lappirnar við ákvarðanir um aðferðina um skipan D-listans. Því fyrr sem fólk er valið til framboðs þeim mun meiri líkur eru á samstilltu sigurátaki.