16.6.2019 8:13

Fall Íkarusar

Enska skáldið W.H. Auden orti árið 1938 ljóðið Musée des Beaux Arts um listasafnið í Brussel og minntist þar sérstaklega á þetta Íkarus-málverk.

Í gær (15. júní) átti ég lausa stund í Brussel og fór þá eins og oft áður í konunglega listasafnið þar sem sjá má ýmis fágæt verk. Þar eru til dæmis nokkur málverk eftir þá Pieter Bruegel I og II, það er feðgana, eldri og yngri.

Eitt málverkið nefnist fall Íkarusar og birti ég mynd af því hér. Við það stendur Pieter Bruegel I ? sem gefur til kynna að óvíst sé hvort hann sé höfundurinn.

IMG_8754Enginn í málverkinu kippir sér upp við að Íkarus falli til jarðar eftir að vax-vængir hans bráðnuðu þegar hann flaug of nærri sólu. Bóndinn gengur á eftir plógnum, fjárhirðirinn lætur sig dreyma og veiðimaðurinn dorgar við sjóinn en fyrir aftan skipið má sjá fótleggi Íkarusar þegar hann sekkur í djúpið.

Enska skáldið W.H. Auden orti árið 1938 ljóðið Musée des Beaux Arts um listasafnið í Brussel og minntist þar sérstaklega á þetta Íkarus-málverk.

Það fer ekki mikið fyrir því í safninu og eins og að ofan segir er óvissa um höfundinn.

Í lýsingu Audens er einmitt lögð áhersla á að málverkið sýni augnablik afskiptaleysis annarra af þjáningum einhvers sem þeir þekkja ekki,

„how everything turns away / Quite leisurely from the disaster ... the white legs disappearing into the green,“ segir skáldið.