Fákunnátta eða ásetningur?
Eftir vel heppnaðan, fjölmennasta flokksráðsfund í sögu Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var laugardaginn 31. ágúst kynnti ríkisútvarpið tvo einstaklinga til sögunnar og lætur eins og þeir séu dæmigerðir sjálfstæðismenn.
Upplýsingaóreiða með upplýsingafölsunum og hálfsannleika er skilgreind sem hluti af fjölþátta ógnum í nútímasamfélögum. Lögð er áhersla á að fræða almenning um hættur sem af þessari óreiðu leiðir. Ein leið til þess sé að leggja mat á trúverðugleika miðlanna sem segja fréttir, hvort þeir segi alla söguna eða aðeins þann hluta hennar sem þjónar ákveðnum tilgangi.
Eftir vel heppnaðan, fjölmennasta flokksráðsfund í sögu Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var laugardaginn 31. ágúst kynnti ríkisútvarpið tvo einstaklinga til sögunnar og lætur eins og þeir séu dæmigerðir sjálfstæðismenn.
Annar þeirra er Páll Magnússon, fyrrv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, nú leiðtogi klofningshóps gegn Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum. Páll reiddist Bjarna Benediktssyni flokksformanni þegar hann naut ekki trausts til að verða ráðherra. Hefur það haft afleiðingar og mótar afstöðu hans til Bjarna og Sjálfstæðisflokksins.
Páll var kallaður í umræðuþátt ríkisútvarpsins Silfrið mánudaginn 2. september með þremur öðrum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins til að tala flokkinn niður eftir flokksráðsfundinn. Þetta val á „málsvara“ Sjálfstæðisflokksins í umræðunum ber annaðhvort vott um ótrúlega fákunnáttu þáttarstjórnanda eða vísvitandi aðför að óhlutdrægni í þættinum.
Hinn er Bolli Kristinsson athafnamaður sem sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum í júní 2019 vegna þriðja orkupakkamálsins. Taldi Bolli pakkann grafa undan fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Spáði hann Sjálfstæðisflokknum 15% fylgi í næstu kosningum – niðurstaðan varð 24,4%.
Fréttir birtust um úrsögn Bolla og rætt var við hann í morgun- og spjallþáttum útvarpsstöðvanna. Hann vandaði flokknum ekki kveðjurnar.
Nú er Bolli aftur í fréttum vegna afstöðu hans til Sjálfstæðisflokksins. Hann sendi miðstjórn flokksins fyrir nokkrum vikum bréf til að kanna hvort hugsanlega yrði leyft að bjóða fram DD-lista í komandi kosningum, það er eins konar hjálista við D-lista Sjálfstæðismanna. Engum þótti þetta í frásögur færandi. Ekki heldur að hann hafi að líkindum skráð sig í flokkinn að nýju eftir að hann sá að fullveldið hyrfi ekki með samþykkt orkupakkans.
Eftir flokksráðsfundinn sá fréttastofa ríkisútvarpsins þó ástæðu til að hampa Bolla og bréfinu, þó án samskiptasögu Bolla við flokkinn. Var meira að segja gengið með þjósti að Bjarna Benediktssyni vegna þessa gamla bréfs í sjónvarpsfréttum (3. september). Má segja Bjarni hafi vísað fréttamanninum til föðurhúsanna enda einkenndist framkoma hans og framsetning öll af skýrum vilja til að setja bréfið í annað ljós en langvinnt pólitískt ergelsi Bolla sýnir.
Í dag halda áfram fjölmiðlaumræður um þetta uppátæki Bolla. Á Bylgjunni er Páll Magnússon, kallaður á vettvang. Hann lýsir bréfi Bolla sem „neyðarkalli“!
Sé Bolli í „neyð“ hlýtur honum að létta við að njóta að minnsta kosti samúðar Páls fyrir utan að komast í fréttir dag eftir dag hjá fréttastofum sem gæta ekki grunnreglna heiðarlegrar fréttamennsku heldur ýta markvisst undir upplýsingaóreiðu af fávisku en þó líklega fremur af þeim ásetningi að vega að Sjálfstæðisflokknum.