25.5.2022 9:15

Eygir Þórdís Lóa stólinn?

Þarna eru fjórir flokkar með 13 borgarfulltrúa, þeir þurfa 12 til meirihluta. Hætta er á að einn verði út undan, flokkurinn með eina borgarfulltrúann, Viðreisn, nema rétt sé haldið á spilum.

Í Fréttablaðinu í dag (25. maí) segir frá upphafi meirhlutaviðræðna fulltrúa Framsóknarflokksins (B), Samfylkingar (S), Pírata (P) og Viðreisnar (C) í stjórn Reykjavíkurborgar næstu fjögur ár. Þarna eru fjórir flokkar með 13 borgarfulltrúa, þeir þurfa 12 til meirihluta. Hætta er á að einn verði út undan, flokkurinn með eina borgarfulltrúann, Viðreisn, nema rétt sé haldið á spilum.

Framsóknarflokkurinn átti engan fulltrúa í borgarstjórn 2018 til 2022 en fékk nú fjóra kjörna með loforðum um breytingar. Hvaða breytingar sjá fulltrúar samstarfsflokka hans líklegastar?

„Ég sé fyrir mér að Sundabraut verði byggð. Það er líklegt en útfærslan er enn óljós,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og varaformaður þess flokks.

„Við munum leggja áherslu á að fara í Sundabraut, að mínu mati er Sundabraut partur af þéttingu byggðar og uppbyggingu atvinnufyrirtækja á Esjumelum,“ segir Þórdís Lóa. Hún bætir við að Sundabraut sé umhverfisvæn og góð framkvæmd.

Þá segir einnig í Fréttablaðinu:

„Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, sagðist talsmaður Sundabrautar í kosningabaráttunni. Ekki er vitað til að andstaða sé meðal Pírata við Sundabraut. Flest bendir því til að ráðist verði í mannvirkið á kjörtímabilinu. Ef næst að mynda meirihluta milli flokkanna fjögurra.“

Að tíðindamanni blaðsins finnist þetta fréttnæmt sýnir aðeins að hann man ekki eða veit ekki hvað R-listafólkið sagði um Sundabrautina þegar það settist í meirihlutastjórn borgarinnar fyrir réttum 20 árum. Yfirlýsingarnar voru nákvæmlega í þessum sama dúr. Að R-listanum stóðu framsókn, Samfylking og vinstri græn (VG). Nú vill VG sleikja sár sín eftir samstarfið undir forystu Dags B. á undanförnum árum. Heiftin frá vinstri í garð flokksins blossar nú upp og prestur í Reykjavík segir að forysta hans eigi vísa vist í víti!

1341358Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Varla getur þetta þó verið breytingin sem framsóknarmenn telja duga til að réttlæta stuðning sinn við leifarnar af fyrri meirihluta Dags B.? Fréttablaðið segir að borgarstjórastóllinn geti „orðið bitbein og sundrað samstöðu“.

Tvennum sögum fer af því hvað gerðist á samráðsfundi Einars með baklandi sínu í framsókn mánudaginn 23. maí. Eftir fundinn sagðist hann ekki ætla að „úttala“ sig um hver ætti að verða borgarstjóri en Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að „samhljómur hafi verið innan grasrótarinnar [í Framsóknarflokknum] um að verði gengið til formlegra viðræðna til vinstri verði gerð skýlaus krafa um að Einar verði borgarstjóri allt næsta kjörtímabil“.

Í Fréttablaðinu í dag segir „að hjá Pírötum og innan Viðreisnar hafi verið rætt hvort lending í átökum Dags og Einars um borgarstjórastólinn gæti orðið ef einhver annar en þeir tveir yrði borgarstjóri“.

Verði í alvöru tekið til við að ræða um þriðja aðila sem borgarstjóra til að halda bæði Einari og Degi B. frá embættinu og tryggja þannig hæfilegt jafnvægi í meirihlutanum liggur beinast við að 13. fulltrúi meirihlutans, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, verði borgarstjóri. Hún er jú splittið sem tengir þetta allt saman.