25.4.2017 15:26

Eyðimerkurganga jafnaðarmanna í Evrópu

Klassískt vinstra fylgi í Frakklandi hefur hrapað úr 43% niður fyrir 30%.

Í umræðum í Frakklandi gætir þess sama og hér á landi eftir kosningarnar 29. október 2016 að undrunin yfir niðurlægingu jafnaðarmanna eða sósíalista vegur þyngra í umræðum um úrslitin en skýringar á því hvers vegna evrópskir jafnaðarmenn fá svo slæma útreið. Í kosningunum í Hollandi um miðjan mars hrundi fylgið af jafnaðarmönnum og sama gerðist í forsetakosningunum í Frakklandi. Fylgi við frambjóðanda þeirra var aðeins um 6% í fyrri umferð forsetakosninganna eða svipað og við Samfylkinguna hér á landi í kosningunum 29. október 2016.

Af þessu tilefni er rætt við Jacques Julliard, sagnfræðing og sérfræðing í sögu franskra sósíalista, í blaðinu Le Figaro þriðjudaginn 25. apríl. Hann segir að fylgishrunið í Frakklandi sé ekkert einsdæmi, þróunin sé á þennan veg um heim allan. Hann segist minnast þess að François Mitterrand, fyrsti forseti franskra sósíalista í fimmta lýðveldinu, hafi sagt: „Vinstrið á um 43% atkvæða.“ Nokkrum árum síðar hafi hlutfallið ekki verið nema 35% og nú sé það að fara niður fyrir 30%. Klassískt vinstra fylgi í Frakklandi hafi hrapað úr 43% niður fyrir 30%.

Á hinn bóginn beri að líta til þess að óskin um að njóta þess sem jafnaðarstefnan hafi að bjóða, félagslegrar verndar samhliða lágmarksfrelsi, sé hávær í Kína, Indlandi og Evrópu. Það sé misskilningur að halda því fram að jafnaðarstefnan sé fortíðarstefna.

Í Frakklandi hafi François Hollande forseti misst stjórn á eigin flokki. Það komi mjög á óvart því að hann hafi verið flokksritari sósíalista árum saman og litið hafi verið á hann sem slyngan fulltrúa flokkskerfisins. Í upphafi forsetaferils síns hafi hann sýnt allof mikið veiklyndi. Hann hafi leyft andstæðingum sínum innan flokksins að ná allof góðri fótfestu.

Þá verði að líta til þess að innan flokks sósíalista hafi þeir náð undirtökunum sem höfði síst til kjósenda. Þetta hafi leitt til þess að nú sé ekki að finna neina í fremstu röð franskra sósíalista sem kenna megi við la culture de gouvernement, það er að enginn meðal þeirra sé stjórnhæfur. Það hafi að vísu löngum einkennt franska sósíalista að þeir hafi gjarnan haft andúð á stjórnartaumunum. Þetta hafi breyst með Mitterrand, Rocard, Jospin og jafnvel Hollande. Þeir hafi allir talið að vinstrið ætti að stilla sér upp gegn hægrinu til að bjóða annan kost. Nú í þessum kosningum hafi fjórir vinstri frambjóðendur stillt sér upp til vinstri við Hollande, jafnaðarmenn hafi ekki átt neinn frambjóðanda. Þetta hafi orðið til þess að margir jafnaðarmenn hafi kosið miðjumanninn Macron, frambjóðanda menningarvita og bankamanna, ekki verkamanna, launþega, smákaupmanna og iðnaðarmanna.

Á frönsku tala menn um bobos, áhrifahóp sem fylgi Emmanuel Macron að málum. Til að lýsa á íslensku hverjir eru þarna á ferð má nefna umræður hér um 101-fólk og áhrif þess á íslenskar stjórnmálaumræður eða stjórn Reykjavíkurborgar: mennta- og fjármálafólk sem hallast að aðild Íslands að ESB og telur skort á henni standa sér fyrir þrifum.

Julliard segist sjá fimm fylkingar á franska þinginu eftir kosningar til þess í sumar: fylgismenn Þjóðfylkingar Marine Le Pen, mið-hægrimenn í Lýðveldisflokknum, nýja fylkingu undir merkjum Áfram! til stuðnings Marcon, endurnýjaðan flokk jafnaðarmanna og vinstrisinna í ætt við Die Linke í Þýskalandi eða Podemos á Spáni.

Hér á landi eru sex fylkingar á þingi: Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn-Björt framtíð, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, vinstri grænir og Píratar.

Hér má setja Pírata lengst til vinstri. Í Frakklandi setja menn Þjóðfylkinguna lengst til hægri vegna stefnu hennar gagnvart múslimum og í útlendingamálum. Julliard segir að þessi málaflokkur skilji á milli Þjóðfylkingarinnar og flokks Jean-Lucs Mélenchons. Í öðrum málum sé mikill samhljómur á milli þeirra sem flokkaðir sé lengst til hægri og vinstri (Sur les autres, il n'y a pas beaucoup de différences entre Marine Le Pen et Mélenchon).