21.11.2025 10:24

Evrudraumar - sérregla um 200 mílur

Ferlið er skýrt, krafan um aðlögun er skýr en svör þeirra sem vilja færa Íslendinga inn í þetta kerfi eru engin. 

Líklegt er að eftir síðustu uppákomu í samskiptum íslenskra stjórnvalda og forráðamanna ESB herðist enn áróður ESB-aðildarsinna fyrir málstað sínum til að rétta hlut sambandsins og styrkja eigin stöðu. Haldreipi þessa hóps er evran og boðskapurinn um nýjan tíma með upptöku hennar.

Brynjólfur Magnússon lögfræðingur lýsir ferlinu sem tæki við eftir að aðlögunarviðræðum við ESB lyki og gengist hefði verið undir að taka hér upp evru. Þótt þetta ferli hæfist ekki fyrr en eftir 2030, að lokinni breytingu á stjórnarskránni og samþykkt þjóðarinnar um aðild í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu, skal vitnað í það sem Brynjólfur segir um leiðina að evrunni á Facebook-síðu sinni 20. nóvember:

1. Til að taka upp evru þarf Ísland að fara í ERM-II.

2. Gengi krónunnar þarf að haldast stöðugt í minnst tvö ár.

3. Engar stórar sveiflur, engin neyðarinngrip, engar gengisfellingar.

4. Verðbólga þarf að falla niður í 2–3% og vera stöðug.

5. Ríkisfjármál þurfa að vera innan Maastricht-viðmiða.

6. Langtímavextir þurfa að nálgast vexti í stöndugustu ESB-ríkjum.

Þetta er strangt, margra ára ferli og það gerist ekki bara „hókus pókus“.

Þess vegna spyr ég Viðreisn, á mjög einföldu máli:

· Hvað eruð þið að gera til að halda krónunni stöðugri í tvö ár?

· Hvernig ætlað þið að ná verðbólgu niður í 2–3%?

· Hvaða áætlun hafið þið varðandi kjarasamninga, framleiðni og ríkisfjármál?

· Hvernig eiga langtímavextir að lækka áður en evran kemur yfir höfuð til greina?

· Og ef þetta mistekst — hver ber ábyrgð?

Og þá kemur stóra spurningin:

Ef Viðreisn telur sig geta náð öllum þessum markmiðum (stöðugleika, lágri verðbólgu, lægri vöxtum, aga í ríkisfjármálum) …

… eru þau þá ekki í raun að lýsa fullkominni lausn fyrir okkur Íslendinga án þess að við þurfum að ganga í ESB? Ég segi bara hjartans þakkir, Viðreisn.

2e0e49a611f7a1053383bf61e5958926

Þegar rýnt er í athugasemdir við þessa FB-færslu Brynjólfs sést að ESB-aðildarsinnar skjóta sér undan að svara spurningum hans. Dylgjað er um að hann hræðist atkvæðagreiðsluna sem boðuð hefur verið fyrir árslok 2027 um einhverja spurningu sem enginn veit enn hver verður. Þá er sagt að innganga Króata í ERM-II, það er að viðhalda fjármálastöðugleika sem er nauðsynlegur fyrir þátttöku í myntbandalagi evrusvæðisins hafi einmitt stuðlað að slíkum stöðugleika!

Viðbrögðin við orðum Brynjólfs bera með sér að ESB-aðildarsinnar hafa engin svör. Ferlið er skýrt, krafan um aðlögun er skýr en svör þeirra sem vilja færa Íslendinga inn í þetta kerfi eru engin. Þarna blasir sama við og þegar spurt er hvað aðildarsinnar vilja að gert sé til að tryggja Íslendingum óskorað vald yfir 200 mílna efnahagslögsögunni.

Þar dugar ekkert annað en sérregla, án hennar verður gengið til atkvæða í ráðherraráði ESB á sama hátt og gert var vegna járnblendistollanna og ákveðið hvernig fiski á svæðinu frá 12 að 200 mílum skuli ráðstafað til fiskveiðiþjóða í ESB. Þar verður reglan um hlutfallslegan stöðugleika látin ráða án þess að fulltrúi Íslands fái rönd við reist frekar en þegar verndartollurinn var ákveðinn af ESB þriðjudaginn 18. nóvember.

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika gildir innbyrðis meðal ESB-ríkja og mælir fyrir um skiptingu ESB-aflamarks milli aðildarríkja sambandsins. ESB-aðildarsinnar hafa rangtúlkað regluna og segja hana ná til veiða í lögsögu ríkis utan sambandsins, til dæmis á Íslandsmiðum. Þessi rangtúlkun er að baki fullyrðingum þeirra um að ekki sé þörf á sérreglu undan sjávarútvegsstefnu ESB.

Sérregla verður að vera samþykkt einróma í leiðtogaráði ESB og á þjóðþingum aðildarríkja ESB. Í atkvæðagreiðslunni um verndartollana nutum við stuðnings sex ríkja sem eru með okkur og Norðmönnum í NB8-hópnum auk Ungverjalands – 7 af 27 ESB-ríkjum studdu okkur. Án sérreglu verður nýting Íslandsmiða ákveðin á þennan hátt, sjái ESB-sinnar drauma sína rætast.