30.10.2025 10:48

Evrópuhreyfing í öngstræti

Þessi frumlega fyrirsögn kann að virka sem klikkbeita en hún er á skjön við allan veruleika í umræðum um afstöðu Íslendinga til alþjóðlegs samstarfs nú á tímum.

Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri Visku Digital Assets ehf. og Visku sjóða, býr að langri reynslu af störfum á fjármálamarkaði og hefur lengst af starfað á sviði markaðsviðskipta.

Hann birti grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 29. október þar sem hann vísaði til þess að þýska iðnveldið molnaði nú innan frá og franska velferðarkerfið væri tæknilega gjaldþrota. „Grunnstoðir Evrópu, iðnaður og velferð, eru báðar að gefa sig samtímis,“ sagði Daði og undraðist að þrátt fyrir þetta heyrðust hér á landi raddir sem vildu Ísland inn í Evrópusambandið. Taldi hann það vera „eins og að hlaupa inn í brennandi hús og vona að hitinn verði minni fyrir innan“.

Í grein sinni færði Daði rök fyrir þessari skoðun sinni með því að lýsa nánar stöðunni í Þýskalandi og Frakklandi. Að lokum segir hann:

„Að ganga inn í Evrópusambandið núna væri ekki leið til að tryggja stöðugleika heldur leið til að flytja inn óstöðugleika annarra. Við myndum taka upp evruna og missa stjórn á peningamálum okkar á sama tíma og sambandið sjálft glímir við dýpstu efnahagsáskoranir í áratugi. [...] Við ættum að nýta okkar styrkleika, ekki fórna þeim. Ísland á ekki að hlaupa inn í brennandi hús.“

Skömmu eftir hádegi sama dag og grein Daða birtist svarar Magnús Árni Skjöld Magnússon, formaður Evrópuhreyfingarinnar, henni á Vísi. Hann skautar fram hjá því að svara efni greinar Daða en nálgast viðfangsefnið á þann hátt sem fyrirsögn hans gefur til kynna en hún er þessi: Erum við enn þá hrædd við Davíð Oddsson?

1583023

Þessi frumlega fyrirsögn kann að virka sem klikkbeita en hún er á skjön við allan veruleika í umræðum um afstöðu Íslendinga til alþjóðlegs samstarfs nú á tímum. Til að rökstyðja fyrirsögn sína segir formaður Evrópuhreyfingarinnar að margir sjái kosti við aðild að ESB en stöðu sinnar vegna geti þeir ekki tjáð sig um það opinberlega. Magnús Árni túlkar þetta þannig að fólk sé svo hrætt við Davíð Oddsson að það þegi um jákvæða afstöðu sína til ESB.

Hefur Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, ekki einmitt kosið að þegja? Vill hún nokkuð að fólk hafi hátt um ást hennar og annarra á ESB? Þetta er sama afstaða og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Erna Solberg, formaður norska Hægriflokksins, hafa. Þau sjá marga kosti við aðild að ESB en ætla ekki að leggja málið fyrir þjóð sína af því að þau vilja ekki kljúfa hana í átökum um málið.

Þegar formaður Evrópuhreyfingarinnar kennir Davíð Oddssyni um að margir séu þeirrar skoðunar að ekki eigi að setja allt á annan endann vegna ESB vill formaðurinn ekki horfast í augu við hve mikil mistök Kristrún gerði með því að semja um þetta hjartans mál Viðreisnar. Flokkurinn var stofnaður í kringum þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB og fór ekki í stjórn án þess að minnst væri á hana í sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Tímasetningin um að atkvæðagreiðslan yrði fyrir árslok 2027 ræðst ekki af neinum þjóðarhagsmunum heldur af pólitískri hentisemi Viðreisnar sem blekkti Kristrúnu. Evrópuhreyfingin situr uppi með það – og ríkisstjórnin.