ETIAS og tímaskekkja utanríkisráðuneytisins
Þessi mál eru einfaldlega ekki viðfangsefni utanríkisráðuneyta heldur dómsmála- eða innanríkisráðherra. No-borders-stefna íslenska utanríkisráðuneytisins er óskiljanleg tímaskekkja.
Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, vakti 5. október athygli á því í grein á Vísi að í dag, sunnudaginn 12. október, hæfist innleiðing á nýju komu- og brottfararkerfi Schengen-svæðisins og ætti henni að ljúka á öllum ytri landamærum Schengen-ríkjanna, þar á meðal Íslandi, í mars 2026.
Skráðar verða allar komur og brottfarir ríkisborgara utan Schengen-svæðisins inn á svæðið til að fá betri sýn yfir það hverjir dvelja á svæðinu á hverjum tíma. Öryggi landamæranna verður þannig styrkt og skilvirkni í landamæraeftirliti eykst. Nýja kerfið styrkir alþjóðlegt lögreglusamstarf í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi, mansali, vopnasmygli og hryðjuverkum. Íslendingar eru aðilar að þessu samstarfi á vettvangi Europol: Evrópulögreglunnar; Interpol: alþjóðalögreglunnar. Íslenska lögreglan hefur aðgang að Schengen-upplýsingakerfinu þar sem birt eru rauntímagögn um einstaklinga og farartæki sem tengjast öryggismálum og Prüm-samstarfinu sem gerir Evrópuríkjum kleift að bera saman lífkennagögn og DNA sín á milli í sakamálarannsóknum. Þá er Ísland aðili að Landamærastofnun Evrópu, Frontex. Allt eru þetta verkefni á ábyrgð dómsmálaráðherra og ráðuneytis hans.
![]()
Nýja evrópska ferðaheimildakerfið heitir á ensku European Travel Information and Authorization System (ETIAS) og er sambærilegt við ESTA í Bandaríkjunum og ETA í Bretlandi sem margir þekkja. Unnt er að nota það til að fá ferðaheimildir til stuttrar dvalar í 30 Evrópulöndum.
Þetta kerfi hefur verið lengi í smíðum. Í mörgum tilvikum hefur reynst flókið og viðkvæmt að samhæfa viðhorf 30 ríkja til landamæravörslu en að lokum voru kostirnir taldir meiri en ókostirnir.
Utanríkisráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur nú endurflutt frumvarp um vegabréfsáritanir þar sem utanríkisráðuneytið seilist inn á verksvið dómsmálaráðuneytisins og útlendingastofnunar með því yfirlýsta markmiði að íslensk stjórnvöld eigi að fjölga til mikilla muna útgáfu áritana og ferðaheimilda inn á Schengen-svæðið og taka þar að auki upp kæruleið sem einfaldar öllum sem ekki falla innan hefðbundinnar umgjörðar að komast inn á svæðið.
Þegar þetta mál var til meðferðar í utanríkismálanefnd alþingis á liðnu sumri sagði útlendingastofnun meðal annars í gagnrýnni umsögn sinni að frumvarpið skapaði „mikla óvissu“ um hlutverk útlendingastofnunar við innleiðingu ETIAS.
Í endurfluttu frumvarpi utanríkisráðuneytisins er hvergi minnst á ETIAS heldur er í greinargerð þess að finna úreltar setningar eins og þessar: „Með breyttu fyrirkomulagi [það er flutningi áritana til utanríkisráðuneytisins] verður stjórnsýsla vegabréfsáritana straumlínulöguð og betur samræmd framkvæmd annarra Schengen-ríkja samhliða tryggri landamærastjórn og skilvirkri framkvæmd landamæravörslu.“ Ráðuneytið kemur ekkert að vörslu landamæra!
Þessi mál eru einfaldlega ekki viðfangsefni utanríkisráðuneyta heldur dómsmála- eða innanríkisráðherra. No-borders-stefna íslenska utanríkisráðuneytisins er óskiljanleg tímaskekkja.