ESB-umræður hér og í Noregi
Erna Solberg, sem var endurkjörin formaður Hægriflokksins til tveggja ára, lýsti andstöðu við að flokkurinn gengi til þingkosninga í september 2025 með loforð um að efnt yrði til ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu.
Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar, vakti máls á því á Alþingi þriðjudaginn 25. mars að um liðna hefði norski stjórnarandstöðuflokkurinn Høyre landsfund. Taldi Grímur það nokkur tíðindi að flokkurinn hafi ályktað að Noregur ætti ganga í Evrópusambandið (ESB). Þetta eru í sjálfu sér engin tíðindi. Flokkurinn hefur áratugum saman verið þessu fylgjandi. Málið hefur legið í láginni í nokkur ár eftir að Norðmenn hafa hafnað ESB-aðild tvisvar (1972 og 1994).
Grímur benti á að á landsfundinum hefði verið samþykkt „að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið með hraði ef aðstæður kölluðu á það“.
Grímur lét þess ógetið að Erna Solberg, sem var endurkjörin formaður Hægriflokksins til tveggja ára, lýsti andstöðu við að flokkurinn gengi til þingkosninga í september 2025 með loforð um að efnt yrði til ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili. Hún greiddi atkvæði gegn tillögunni sem landsfundurinn samþykkti. Aðstæður kölluðu ekki á hana.
Erna Solberg á landsfundi Hægriflokksins.
Erna Solberg veit að flokkur hennar fær ekki hreinan meirihluta í kosningunum í september og hún veit einnig að til að mynda stjórn þarf hún að geta starfað með Framfaraflokknum og Kristilega flokknum en hvorugur þessara flokka hefur áhuga á ESB-aðild og þeir vilja ekki neina þjóðaratkvæðagreiðslu um málið á næsta kjörtímabili. Smáflokkar á borð við Venstre og Miljøpartiet fagna samþykkt landsfundar Hægri flokksins.
Formaður Verkamannaflokksins, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra, er sömu skoðunar og Erna Solberg, hvorugt þeirra er andvígt aðild að ESB. Þau mæla hins vegar bæði gegn því að spurningin um ESB-aðild og þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili verði kosningamál í Noregi næstu mánuði.
„Einmitt þessa daga, þegar tollmúrar rísa á milli Bandaríkjanna og Evrópu, verðum við að beina kröftunum að þeim samningi sem við höfum við ESB og ekki neinu öðru,“ er haft eftir norska forsætisráðherranum á vefsíðu NRK, norska ríkisútvarpsins. Þarna vísar hann til EES-samningsins.
Í sömu frétt NRK er vitnað í Guri Melby, formann Venstre, sem vill ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi vegna slíkrar atkvæðagreiðslu hér 2027.
Venstre kann að vera systurflokkur Viðreisnar í Noregi og tengsl séu þá milli flokkanna um að gott sé að valda óvissu í Noregi með boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu hér. Norsku óvissuna megi túlka hér sem norskt skref inn í ESB og þess vegna verði einnig að stíga það hér.
Pólitískir leikir af þessu tagi milli aðgerðarsinna í Osló og Reykjavík hafa verið stundaðir áður. Andstæðingar EES í Noregi beittu sér hér gegn þriðja orkupakkanum og beit Miðflokkurinn á agnið. Nú snýst leikurinn um að koma okkur í ESB með samspili Viðreisnar og Venstre.
Grímur Grímsson lýsti samþykkt Høyre sem stórtíðindum, „sér í lagi þar sem þá yrði það raunverulegur möguleiki að EES samanstæði aðeins af Íslandi og Liechtenstein“. Í Noregi varar Guri Melby við að Noregur verði einn í EES með Liechtenstein. Samhljómurinn er algjör í hræðsluáróðrinum. Margt ógnvænlegra er á döfinni sem réttlætir alls ekki átök um ESB, hvorki hér né í Noregi.