11.9.2025 10:36

ESB-tillaga í felum

Það er sem sagt í krafti stjórnmálareynslu utanríkisráðherra sem nýtur ótvíræðrar virðingar forsætisráðherra sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita klækjastjórnmálum í ESB-málinu á heimavelli.

Í stefnuræðu sinni 10. febrúar 2025 kynnti Kristrún Frostadóttir ríkisstjórn sína til leiks og sagði að í „samhengi alþjóðamála“ værum við sannarlega heppin með utanríkisráðherra, „enda ekki að ástæðulausu sem formaður eins af stjórnarflokkunum [hefði tekið] að sér þetta mikilvæga embætti; mesti reynsluboltinn í ríkisstjórninni, reyndar á Alþingi líka og líklega í íslenskum stjórnmálum heilt yfir“. Það myndi koma sér vel á næstu árum að vera með ofurtrausta konu í forsvari fyrir Ísland í utanríkismálum.

Fréttamaður Sýnar spurði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra nú í vikunni hvers vegna ekki væri að finna tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB-aðildarviðræðna á þingmálaskránni sem kynnt var í tilefni af stefnuræðu forsætisráðherra 10. september 2025, sjö mánuðum eftir fyrstu stefnuræðu Kristrúnar. Í stjórnarsáttmálanum segir að atkvæðagreiðslan skuli fara fram fyrir árslok 2027. Vissulega er ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Screenshot-2025-09-11-at-10.34.32Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í ræðustól alþingis 10. september 2025.

Þorgerður svaraði fréttamanni Sýnar á þennan veg: „Ég mat það svo, bara út frá minni reynslu, að það væri best að hafa hana ekki á skránni því að hún myndi draga athyglina frá öllum þessum fjölmörgu góðu málum, tiltektarmálum, verðmætasköpunarmálum og öðrum málum sem ríkisstjórnin er að leggja fram. En ég hef líka sagt við fjölmiðlafólk þvert yfir flóruna: örvæntið eigi, þetta mál mun koma fram.“

Það er sem sagt í krafti stjórnmálareynslu utanríkisráðherra sem nýtur ótvíræðrar virðingar forsætisráðherra sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita klækjastjórnmálum í ESB-málinu á heimavelli. Á sínum tíma var Þorgerður Katrín sökuð um að beita slíku baktjaldamakki sér til framdráttar í valdabaráttu innan Viðreisnar. Nú segir hún að ekki megi trufla tiltektarmálin með því að ræða ESB. Hún ætlar að vinna að málinu í felum.

Aðeins einn stjórnarsinni minntist á ESB-þjóðaratkvæðagreiðsluna í stefnuræðuumræðunum 10. september, Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar. Hann var líklega með klæki Þorgerðar Katrínar í huga þegar hann sagði: „Það er verið að reyna að koma okkur í Evrópusambandið, sama hvað. Það er verið að reyna að koma okkur í Evrópusambandið í skjóli nætur. Það er verið að reyna að fara með okkur bakdyramegin inn í Evrópusambandið.“ Hann sagði einnig: „ Við förum ekki bakdyramegin inn, einfaldlega vegna þess að við vitum ekkert hvar bakdyrnar á Brussel eru.“

Sigmar glímdi einnig við hugtakið pólitískur ómöguleiki. Í samhengi við ESB er skýringin á því þessi: það boðar enginn til þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við ESB nema hann hafi þá stefnu að hefja skuli slíkar viðræður til að komast inn í sambandið. Þetta er til dæmis augljós skilningur Brusselmanna á boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu 2027. Þeir eins og allir, utan Viðreisnarmanna, vita að það er pólitískt ómögulegt að andstæðingar aðildar að ESB kalli þjóðina að kjörborðinu í því skyni að fá umboð til aðildarviðræðna.

Sigmar Guðmundsson vill inn í ESB og þess vegna vill hann þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann vill hins vegar ekki segja kjósendum um hvaða stefnu í viðræðum við ESB eigi að kjósa. Hann vill ekki heldur upplýsa kjósendur um hvernig hann vill breyta stjórnarskránni svo að ESB-aðildardraumur hans rætist. Hann segist bara vilja atkvæðagreiðslu, punktur.

Þorgerður Katrín vill komast hjá því að ræða ESB-málið og atkvæðagreiðsluna. Hún ætlar að leggja eitthvað fyrir þingið um málið þegar tiltektinni er lokið. Rislægri verður málafylgjan ekki þegar um stærsta átakamál íslenskra stjórnmála er að ræða, mál sem ríkisstjórnin dró upp úr skúffunni með Brusselmönnum en vill þó áfram hafa í felum.