4.4.2025 10:10

ESB-spark í Flokk fólksins

Á tímum sem þessum skiptir meira máli að sameina þjóðina um stefnu hennar út á við en sundra henni. Að hefja nú ESB-aðildartal snýst um líf ríkisstjórnarinnar, ótta við fall hennar.

Hér hefur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur á stefnuskrá sinni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um „um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu“ eigi síðar en árið 2027.

Þorsteinn Pálsson, ESB-hugmyndafræðingur Viðreisnar, er þeirrar skoðunar að um sé að ræða atkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina frá 2009. Hana eigi að leggja fyrir þjóðina eins og Össur Skarphéðinsson skildi við hana í janúar 2013 þegar hann reyndi að komast hjá því að rætt yrði um hrakfarir hans í Brussel í kosningabaráttunni þá um vorið.

Þorsteinn vill nú að gengið verði til atkvæða um þetta mál á lokamánuðum ársins 2025 og telur sig með því taka undir sjónarmið Dags B. Eggertssonar, talsmanns þingflokks Samfylkingarinnar í utanríkismálum.

Þeir Þorsteinn og Dagur B. segja nú rétta tímann til að stofna til átaka í samfélaginu um ESB-málið vegna óvissu á alþjóðavettvangi, stríðsógnar og Donalds Trump.

Fyrir þessari skoðun skortir öll málefnaleg og skynsamleg rök. Á tímum sem þessum skiptir meira máli að sameina þjóðina um stefnu hennar út á við en sundra henni. Að hefja nú ESB-aðildartal snýst um líf ríkisstjórnarinnar, ótta við fall hennar.

Screenshot-2025-04-04-at-10.09.19

Þá má vísa til þess að á málstofu sem hér var haldin fimmtudaginn 3. apríl af Varðbergi, sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi og pólska sendiráðinu í Reykjavík um evrópsk öryggis- og varnarmál í breytilegum heimi kom ekkert fram sem segir að öryggishagsmuna Íslands yrði betur gætt innan ESB en utan. Stóru flokkarnir í Noregi, Verkamannaflokkurinn og Hægriflokkurinn, halda nú landsfundi sína og móta stefnu fyrir þingkosningarnar í september 2025. Formenn þeirra beggja, Jonas Gahr Støre og Erna Solberg, vilja að Noregur gangi í ESB en hvorugt þeirra vill þjóðaratkvæðagreiðslu um málið á kjörtímabilinu 2025 til 2029.

Støre setti 70. landsfund Verkamannaflokksins fimmtudaginn 3. apríl og sagði: „Já, við verðum að ræða opið um samband Noregs við Evrópu. Ný þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB er ekki það besta fyrir Noreg. Á óróatíma vil ég frekar sameina Noreg en að stofna til nýrrar lotu þar sem menn eru með eða á móti.“

Hann fjallaði mikið um uppnámið á alþjóðavettvangi í ræðu sinni. Nú yrði að verja kröftunum til að gæta hagsmuna Noregs en ekki í langvinnt umsóknar- og aðlögunarferli sem auk þess sundraði þjóðinni.

„Leyfið mér að segja það eins skýrt og ég get við þá sem hafna EES-samningnum: Það kemur ekki til mála! Verkamannaflokkurinn er ábyrgðarmaður EES-samningsins!“ sagði forsætisráðherrann.

Þau sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu hér þora ekki að segja að hún snúist um aðild að ESB. Þau þorðu ekki að ræða opið um málið fyrir kosningarnar 30. nóvember 2024. Ákvæðið í stjórnarsáttmálanum lýsir fyrirlitningu á kosningastefnu Flokks fólksins. Nú telja áhugamenn um ESB-aðild Ingu Sæland standa svo veikt að hún svíki þetta kosningaloforð sitt fyrir völdin.