24.7.2025 10:08

ESB-skrifræði leitt til valda

Mörgum finnst nóg um skrifræðið við framkvæmd og hagsmunagæslu vegna EES-aðildarinnar. Sú byrði er þó smáræði miðað við það sem krafist er vegna ESB-aðildarinnar. 

Nauðsynlegt er að gæta að því að íslensk stjórnvöld fari ekki á undan sjálfum sér vegna ógagots ýmissa ráðherra sem setja stefnuna á ESB-aðild. Til hennar kæmi ekki fyrr en eftir mörg ár jafnvel þótt umsókninni frá 2009 yrði breytt í uppvakning og hann látinn vísa okkur leiðina.

Aðgátin er ekki síst nauðsynleg því að aðildarviðræðuæðið og framkvæmd þess kallar á að allt stjórnarráðið sé stillt á nýja bylgjulengd.

Bureaucrat-1-862x503

Það er ein af lyginni sem haldið er á loft til að sverta EES-samninginn að við „sitjum ekki við borðið“, að við höfum ekkert um efni reglnanna að segja sem hér eru innleiddar til að tryggja gildi sameiginlega markaðarins hér. Þessi lygi einkennir ekki aðeins það sem andstæðingar EES-samningsins segja, heldur einnig og ekki síður áróður þeirra sem vilja okkur inn í ESB.

Veruleikinn er annar: ef við mótum okkur skýra stefnu til einhvers ákveðins álitaefnis sem er til meðferðar í sérfræðinefndum ESB, uppsprettu laga og reglna þar, og komum málstað okkar á framfæri á réttum stað og á réttum tíma getum við haft áhrif á efni reglnanna eða sett við þær fyrirvara sem er virtur alla leið. Íslenska stjórnkerfið hefur undanfarin ár gengið skipulega fram við þessa hagsmunagæslu með miðlægum gagnagrunni og ákvörðun um forgangsverkefni.

Þá hefur seta fulltrúa Íslands á fundum stjórna sérstofnana ESB um mikilvæga málaflokka aukið áhrif okkar á stefnumótun og úrlausn einstakra verkefna. Um þetta liggja fyrir staðfestar upplýsingar á ýmsum sviðum.

Miklu meiri upplýsingum er miðlað um þessi mál af hálfu íslenskra stjórnvalda en áður var og má þar sérstaklega nefna Brussel-vaktina, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Það er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Þar hefur hvað eftir komið fram að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki gagnvart ESB og að íslensk stjórnvöld hafi slitið aðildarviðræðum við sambandið.

Mörgum finnst nóg um skrifræðið við framkvæmd og hagsmunagæslu vegna EES-aðildarinnar. Sú byrði er þó smáræði miðað við það sem krafist er vegna ESB-aðildarinnar. Samkvæmt Draghi-skýrslunni svonefndu sem birtist fyrr á árinu er skrifræðið gríðarleg hindrun fyrir samkeppnishæfni ESB. Árið 2024 var þar sett „reglumet“. Alls hafa 13.000 nýjar ESB-reglur orðið til síðan 2019.

Ríkisstjórnin leggur nú á ráðin um hvernig hún getur fyrir opnum tjöldum eða laumulega þokað Íslandi inn í ESB. Hún hefur strax fengið hjálparhönd frá Brussel.

ESB-uppvakningurinn er kominn á kreik. Á að mynda sérstakt stjórnkerfi í kringum hann? Á að íþyngja þeim sem sinna EES-málum með því að framkvæma aðlögunina að aðild? Á að standa vörð um óbreytt EES-stjórnkerfi samhliða aðlögunarferlinu?

Spurningum sem þessum verður að svara. Svörin opna sýn á ábyrgðarkenndina við framkvæmd EES-samningsins. Ríkisstjórnin kann að telja það þjóna ESB-stefnu sinni að vanrækja EES-samninginn, tala hann niður og eyðileggja.