18.9.2021 10:17

ESB-ölmusustefna í landbúnðarmálum

Í Fréttablaðinu hafa birst leiðarar tvo daga í röð til stuðnings öðru helsta sameiningarmáli vinstri flokkanna, ESB-aðildinni.

Eftir því sem líður á kosningabaráttuna skýrist samstaða þriggja vinstri flokka , það er Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar ESB-aðildina og stjórnarskrármálið. Í báðum málum leikur Sósíalistaflokkurinn með þeim og kann því að verða fjórða hjólið undir vinstri stjórninni. Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn dalar í könnunum, hann einn veitir örugga varðstöðu gegn ríkisstjórn vinstri flokkanna – aldrei verður nein vinstri stjórn með þátttöku Sjálfstæðisflokksins, það er pólitískur ómöguleiki.

896350Í Fréttablaðinu hafa birst leiðarar tvo daga í röð til stuðnings öðru helsta sameiningarmáli vinstri flokkanna, ESB-aðildinni.

Aðalheiður Ámundadóttir, fyrrverandi starfsmaður þingflokks Pírata, skrifar 17. september leiðara í blaðið undir fyrirsögninni: Taka tvö.

Fyrirsögnin vísar til þess að stuðningsmenn ESB verði nú fyrir kosningar og að þeim loknum að taka sér annað tak til að þrýsta Íslendingum inn í Evrópusambandið. Á árunum 2009 til 2013 hafi ESB-stuðningsmönnum mistekist „að kynna fyrir landsmönnum hvernig líf þeirra og lífsgæði gætu breyst með aðild að Evrópusambandinu“.

ESB-liðar hafi þess í stað „pakkað í vörn“. Aðalheiður segir að „einu upplýsingarnar sem venjulegar íslenskar konur og karlar fengu um málið vörðuðu fiskveiðar“. Árangur ESB-viðræðnanna „yrði mældur út frá því hve hagstæður hann yrði sjávarútvegsfyrirtækjum, kjöt- og grænmetisbændum, á kostnað íslenskra neytenda“.

Kenning Aðalheiðar er að umræður um ESB-aðild hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá almenningi vegna hártogana „eða farið upp á plan hagfræðinga með hugtökum sem venjulegir borgarar eiga erfitt með að átta sig á“.

Þetta er sérkennileg rolla miðað við umræðurnar á árunum 2009 til 2013 sem leiddu næstum til brottfarar VG og Samfylkingar af alþingi. Kjósendur skildu þó nóg til þess að átta sig á skaðvöldunum.

Í lok leiðarans segir Aðalheiður að frá því að Ísland sleit aðildarviðræðunum hafi „ESB veitt styrki til 13 milljóna verkefna til að efla dreifbýl svæði í aðildarríkjunum. Hið dreifbýla Ísland hefur ekkert að óttast, nema síður sé,“ segir hún.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, tekur dreifbýlisstyrki ESB til umræðu í leiðara 18. september og beinir orðum til bænda sem séu „fastir í fátæktargildru“ hringinn í kringum landið. „Forkólfar landbúnaðarkerfisins“ hafa að mati ritstjórans „forklúðrað sölumöguleikum bænda og hneppt þá í fjötra sem enginn lykill virðist vera að“. Telur hann að allt breytist þetta til betri vegar með aðild að styrkjakerfi Evrópusambandsins.

Í eitt ár hef ég átt tugi samtala við bændur og þá sem þekkja best til íslensks landbúnaðar. Ekki einn einasti viðmælandi taldi að íslensk landbúnaðarstefna ætti að snúast um aðild að ESB. Enginn nema þeir sem vilja að sjálfstæðir íslenskir bændur verði ölmusuþegar Brusselmanna tala á þann veg sem gert er í leiðurum Fréttablaðsins um framtíð íslensks landbúnaðar. Þar endurómar hins vegar stefna Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata við undirleik Sósíalistaflokksins. Falskari söngur heyrist ekki á íslenskum stjórnmálavettvangi fyrir þessar kosningar.