5.1.2026 12:11

ESB „lykilbreyta“ utanríkisráðherra

Eitt einkenni umræðna um íslensk utanríkismál í tæp 20 ár er að gerist eitthvað óvænt hér heima eða á alþjóðavettvangi hefjast umræður um nauðsyn þess að við göngum í Evrópusambandið (ESB).

Eitt einkenni umræðna um íslensk utanríkismál í tæp 20 ár er að gerist eitthvað óvænt hér heima eða á alþjóðavettvangi hefjast umræður um nauðsyn þess að við göngum í Evrópusambandið (ESB).

Eftir hrun fjármálakerfisins 2008 varð til aðildarumsókn að ESB. Leiðangurinn til Brussel stóð frá 2009 til 2013 og honum var formlega slitið af ríkisstjórn Íslands snemma árs 2015. Ári síðar kom Viðreisn og hélt ESB-merkinu á loft.

Viðreisn setti á oddinn að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild án þess að þeir sem hana vildu stefndu á aðild að ESB! Þessi blekkingarstefna var illu heilli tekin upp í stjórnarsáttmála ráðuneytis Kristrúnar Frostadóttur og á samkvæmt honum að koma til framkvæmda fyrir árslok 2027.

Forsætisráðherra hefur síðan áttað sig á óheillaskrefinu sem var stigið með þessu ákvæði í sáttmálanum: „Ýkjum ekki ágreining og æsum ekki upp sundrungu að óþörfu,“ sagði hún í áramótaávarpi sínu og einnig: „Leyfum engum að kljúfa okkur. Höfnum svartagallsrausi um að íslenska leiðin sé ekki lengur fær og hér þurfi að kúvenda högum okkar og háttum. Ekkert er fjær sanni.“

Þessi orð hafa fengið aukið gildi á þeim fáu dögum sem liðnir eru af nýju ári og stórviðburðunum sem orðið hafa á alþjóðavettvangi og nálgast okkur af auknum þunga og hraða þegar litið er til spennunnar í samskiptum stjórnvalda í Bandaríkjunum, Grænlandi og Danmörku. Ásælni Donalds Trump í Grænland verður að beina í diplómatískan farveg. Óhugsandi er í ljósi víðtækra, sögulegra tengsla stjórnanna þriggja sem hlut eiga að máli að ekki finnist viðunandi lausn án valdbeitingar.

IMG_3272Horft yfir gamla bæinn í Reykjavík að morgni 5. janúar 2026. Sumt er skýrt annað hulið þoku á nýju ári.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gekk til þriggja flokka stjórnarsamstarfs undir forsæti Kristrúnar Frostadóttur fyrir ári með því skilyrði að hún yrði utanríkisráðherra og meginmál flokks hennar, sjálf forsendan fyrir tilvist hans, aðild Íslands að ESB, yrði í sáttmála hennar. Þar er feluleiknum haldið áfram, að unnt sé að greiða atkvæði um aðild að ESB án þess að atkvæðagreiðslan sé um aðildina. Fyrir liggur að framkvæmdastjórn ESB veit um hvað atkvæðagreiðslan er og leggur Viðreisn lið auk ESB-þingsins.

Nú notar utanríkisráðherra það sem hún kallar „ólgutíma“ í alþjóðamálum til að boða að við þurfum að „kúvenda högum okkar og háttum“ svo að vitnað sé í áramótaorð forsætisráðherra.

Í grein á Vísi í dag 5. janúar segir utanríkisráðherra að „dýpra samtal og samvinna við Evrópusambandið“ sé „lykilbreyta“ að „nánara samstarfi við þær þjóðir í okkar heimshluta sem virða og verja þau gildi sem vestræn lýðræðissamfélög hvíla á“. Ráðherrann hrekkur í „gamla ESB-gírinn “ ef svo má að orði komast.

Greininni lýkur á þessum orðum: „Sundurlyndi, yfirlýsingagleði og dauðahald í horfinn heim er ekki það sem við þörfnumst nú um stundir.“ Orðin lýsa best stefnu hennar sjálfrar: ESB-þjóðaratkvæðagreiðsla sundrar þjóðinni; yfirlýsingagleði er einkenni utanríkisstefnunnar og ESB með yfirþjóðlega stjórn yfir fullvalda ríkjum er hluti hverfandi heims nema fylgja eigi dæmi Trumps sem segist nú hafa yfirþjóðlegt vald yfir Venesúela.