17.4.2017 13:10

ESB-framsóknarmaður segir aðild ekki á dagskrá

Full ástæða er að staldra við þegar Jón Sigurðsson, fyrrv. formaður Framsóknarflokksins, ritar grein á vefsíðuna Pressuna sunnudaginn 16. apríl (páskadag) undir fyrirsögninni: Evrópusambandið ekki á dagskrá.

Jón Sigurðsson var seðlabankastjóri, formaður Framsóknarflokksins og viðskiptaráðherra en kynnir sig til sögunnar nú sem fv. skólastjóra þegar hann skrifar greinar í blöð eða á vefsíður og segir álit sitt á málefnum líðandi stundar.

Jón var kjörinn formaður Framsóknarflokksins sumarið 2006 og hætti þá sem seðlabankastjóri. Hann sagði af sér formennskunni í maí 2007 þegar flokkurinn fékk slæma útreið í þingkosningum og Jón náði ekki kjöri sem þingmaður. Sat hann í tæpt ár frá sumri 2006 til afsagnar sinnar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Tók hann við embættinu af flokkssystur sinni Valgerði Sverrisdóttur sem varð utanríkisráðherra þegar sjálfstæðismaðurinn Geir H. Haarde varð forsætisráðherra í stað Halldórs Ágrímssonar.

Áður en Jón Sigurðsson varð eftirmaður Halldórs á formannsstóli í júní 2006 spurðist að vilji einhverra Framsóknarmanna hefði staðið til þess að Finnur Ingólfsson, fyrrv. ráðherra og seðlabankastjóri, yrði flokksformaður. Finnur sagðist hins vegar afhuga frekari pólitískum afskiptum.

Jón Sigurðsson var um skeið rektor Samvinnuháskólans á Bifröst og kýs nú að minna lesendur á skólastjóratíð sína þegar hann skrifar um þjóðmál.

Jón hefur verið í ESB-armi Framsóknarflokksins með Valgerði Sverrisdóttur og fleirum. Þegar Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra vann Jón að skýrslugerð um ýmsa þætti ESB-málefna. Full ástæða er að staldra við þegar hann ritar grein á vefsíðuna Pressuna sunnudaginn 16. apríl (páskadag) undir fyrirsögninni: Evrópusambandið ekki á dagskrá. Greinin hefst á þessum orðum:

„Aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá og verður ekki um fyrirsjáanlega framtíð. Enginn getur fullyrt slíkt, en menn hugsa trúlega til a.m.k. 5-8 ára. En Evrópumál, samskipti Íslendinga við aðrar Evrópuþjóðir, eru auðvitað og verða áfram eitt helsta svið þjóðmála.

Forysta Evrópusambandsins hefur lýst yfir því að ekki sé stefnt að inngöngu fleiri ríkja á næstu árum. Undirbúningur að ferli inngöngusamninga getur þá ekki hafist fyrr en eftir a.m.k. 4-5 ár, jafnvel þótt ríki æski inngöngu fyrr. Gera verður ráð fyrir að inngöngusamningar, þjóðaratkvæðagreiðslur, undirbúningur og ákvarðanir taki varla styttra en 5 ár. Þá er hér fullur áratugur í augsýn, fyrir þá sem leiða huga að þessu.“

Þetta er raunsærra mat á tíma sem tekur að búa þjóð undir ESB-aðildarumsókn en óðagotið sem einkenndi ferlið þegar Jóhanna Sigurðardóttirn og Steingrímur J. Sigfússon leiddu minnihlutastjórnina vorið 2009 með aðstoð Framsóknarmanna undir þingforystu ESB-aðildarsinnans Valgerðar Sverrisdóttur.

Fyrir kosningar vorið 2009 var boðað að það tæki frá 10 til 18 mánuði að koma Íslandi inn í ESB og það yrði að hraða för því að síðari hluta árs 2009 færu Svíar með formennsku í leiðtogaráði ESB og þeir mundu sjá til þess að kasta pokanum með sálu Íslendinga inn um gullna ESB-hliðið.

Allt reyndist þetta tóm vitleysa reist á röngu stöðumati og vanþekkingu.

Í grein sinni segir Jón Sigurðsson síðan: 

„Líklega telja flestir íslenskir Evrópusinnar skynsamlegt eða nauðsynlegt að bíða niðurstöðu um úrsögn Stóra-Bretlands, áður en aftur verði aðhafst af hálfu Íslendinga. Svo mikilvæg er staða Breta talin fyrir okkur. Málefnalega ætti þetta aðeins að verða bið um 3-5 ár eða svo. Bretar geta vel bjargað sér sjálfir, og Evrópusambandið líka. En sundurlyndi Breta, streitur og undirbúningsleysi virðast munu lengja þennan tíma verulega, jafnvel tvöfalda hann.“  

Undir þetta skal tekið en jafnframt er ástæða til að minna á að ljóst var eftir að ESB-umsóknarferli íslenskra stjórnvalda hófst að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um aðild Breta að ESB. Öllum ábendingum um að fyrir Íslendinga væri skynsamlegt að bíða úrslitanna í Bretlandi var illa tekið af ESB-aðildarsinnum á Íslandi, þess þyrfti nú ekki enda töldu þeir áreiðanlegt að ESB-aðild yrði ofan á meðal Breta.

Uppbrotið sem ESB-aðildarbröltið hefur valdið í íslensku stjórnmálalífi er víti til að varast. Þess skal minnst að öðrum þræði vakti fyrir ESB-aðildarsinnum að eyðileggja Sjálfstæðisflokkinn en augljóst var að innan hans yrði klofningur vegna málsins. Vakti ekki síst fyrir Samfylkingarfólki að koma Sjálfstæðisflokknum á kaldan klaka með þessum vélabrögðum. Vopnin snerust í höndum ESB-samsærismannanna – Samfylkingin er orðin að engu.