17.11.2025 12:02

ESB-flækjur vegna kísilmálms

Í sjálfu sér er það ekki stór ákvörðun fyrir ESB að láta hjá líða að beita tollavopninu gegn einni verksmiðju á Íslandi. Fleira hangir örugglega á þessari spýtu úr því að afgreiðslu málsins er frestað hvað eftir annað.

Björn Malmquist, fréttamaður ríkisútvarpsins í Brussel, flutti þá frétt í morgun (17. nóv.) að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði á ný frestað að taka endanlega ákvörðun um hvort að Íslandi og Noregi verði veitt undanþága frá verndartollum sambandsins á kísilmálmi. Upphaflega átti að afgreiða málið á föstudag og þá var því frestað með tilkynningu um að það yrði afgreitt í dag. Nú er sagt að það verði gert á morgun.

Björn segir að frestun afgreiðslu málsins í tvígang bendi til þess að ekki sé nægilegur stuðningur við tillöguna um álagningu verndartollanna.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segist „berjast eins og ljón“ fyrir málstað Íslands. Á mbl.is segir í dag: „Ég held að þetta tengist því að þau eru að vinna að því að ná meirihluta í málinu. Þetta er innra starf sem er í gangi í ESB,” sagði Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, við TV2.“

Í ráðherraráði ESB fara Danir nú með forsæti og þótt sjálfstæði framkvæmdastjórnarinnar sé mikið tekur hún í málum af þessum toga ríkt tillit til pólitískra viðhorfa. Náið er fylgst með öllum ákvörðunum á vettvangi ESB um tolla þegar álagning þeirra eða afnám er eitt heitasta viðfangsefnið í samskiptum ríkja, vopn til að tryggja eigin efnahag og minnka forskot samkeppnisríkja.

Í sjálfu sér er það ekki stór ákvörðun fyrir ESB að láta hjá líða að beita tollavopninu gegn einni verksmiðju á Íslandi. Fleira hangir örugglega á þessari spýtu úr því að afgreiðslu málsins er frestað hvað eftir annað.

Innan ESB eru alls kyns flokkadrættir vegna ólíkra hagsmuna ríkja. Það eru til dæmis skil milli norðurs og suðurs í sambandinu þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum um mörg mál. 

Sé það svo að norðrið leggi áherslu á að ekki séu lagðir tollar á kísilmálm frá Íslandi og Noregi kann suðrið að taka slík tilmæli í gíslingu og neita að verða við þeim nema eitthvert óskamál suðursins hljóti afgreiðslu. Þannig ganga kaupin einfaldlega fyrir sig í Brussel. Flækjurnar kunna að vera enn meiri en hér eru nefndar. Ef til vill notar Viktor Orbán tækifærið til að heimta eitthvað fyrir sig?

Istockphoto-1053217560-1024x1024

Það liggur ekkert fyrir opinberlega við hverja innan ESB íslenskir ráðmenn hafa rætt þetta mál. Innan ríkisstjórnar Íslands eru skiptar skoðanir um afstöðuna til ESB, þar er einnig deilt um hvort efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við ESB fyrr en síðar. Þessi ólíka afstaða kann að ráða einhverju um hvernig staðið er að hagsmunagæslunni gagnvart ESB í þessu máli.

Íslenska hliðin er ekki síður pólitískt flókin en ESB-hliðin. Innlendir ESB-aðildarsinnar vilja geta slegið pólitískar keilur með málinu. Óskastaða þeirra er að ESB segi nei svo þeir geti sagt: Sjáið bara, við verðum að fara í ESB til að gæta hagsmuna okkar. Litar þetta hugarfar afstöðu einhverra ráðherra nú? Vega pólitískir sérhagsmunir þyngra en kísilmálmur hjá þeim?

Ef niðurstaðan verður að EES-samningurinn sé haldreipi Íslands og Noregs sannar hann enn gildi sitt. Ef ESB fellur frá verndartollunum án skilyrða lækkar það risið á ESB-aðildarsinnunum.