ESB-aðildarsinnar fagna
Brusselmönnum er ljóst að þessir tveir lykilráðherrar í málinu fyrir Íslands hönd eiga pólitíska framtíð og tilveru flokks síns, Viðreisnar, undir vegna ESB-aðildar.
MeginNú er ljóst að ESB veitir Íslandi og Noregi ekki undanþágu frá verndaraðgerðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna kísiljárns. Þetta var tilkynnt þriðjudaginn 18. nóvember eftir að fulltrúar ESB-aðildarríkjanna 27 höfðu samþykkt tillögu framkvæmdastjórnar ESB um málið.
Á mbl.is var vitnað í norska ríkisútvarpið sem sagði að fulltrúar Svíþjóðar, Finnlands, Ungverjalands, Eistlands, Lettlands og Litáens hefðu hafnað verndaraðgerðum framkvæmdastjórnarinnar. Fulltrúi Danmerkur hefði setið hjá. Danir fara með formennsku í ráðherraráði ESB. Þá segir að tillagan um að ráðast í aðgerðirnar hafi komið frá Póllandi, Slóvakíu og Frakklandi, með stuðningi frá Spáni.

Íslenskir ráðherrar segja að þeir og embættismenn þeirra hafi barist „eins og ljón“ í málinu, svo vitnað sé í Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra sem gerði hins vegar lítið úr áhrifum ákvörðunar ESB á íslenskan efnahag 18. nóvember.
Hér á þessum stað var sagt mánudaginn 17. nóvember að innan ESB væri þetta pólitísk ákvörðun þar sem meira væri örugglega undir en þetta mál. Þá sagði ég:
„Íslenska hliðin er ekki síður pólitískt flókin en ESB-hliðin. Innlendir ESB-aðildarsinnar vilja geta slegið pólitískar keilur með málinu. Óskastaða þeirra er að ESB segi nei svo þeir geti sagt: Sjáið bara, við verðum að fara í ESB til að gæta hagsmuna okkar. Litar þetta hugarfar afstöðu einhverra ráðherra nú? Vega pólitískir sérhagsmunir þyngra en kísilmálmur hjá þeim?“
Réttmæti þessarar ábendingar birtist nú í orðum Hönnu Katrínar Friðrikssonar atvinnuvegaráðherra í Kastljósi 18. nóvember og viðtali við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag (19. nóv.).
Brusselmönnum er ljóst að þessir tveir lykilráðherrar í málinu fyrir Íslands hönd eiga pólitíska framtíð og tilveru flokks síns, Viðreisnar, undir þegar ESB-aðild og atkvæðagreiðsla um hana er annars vegar. Í Brussel vita menn einnig að fyrrverandi forstöðumaður viðræðnanna um ESB-aðild af Íslands hálfu var fyrir skömmu skipaður sendiherra Íslands í Brussel.
Allt eru þetta vísbendingar sem hafa meira gildi en mörg orð í heimi diplómata og Brusselmanna. Þeir vita að með þeirri ákvörðun sem tekin var í gær var ekki gert neitt sem fælir Viðreisn frá ESB, þvert á móti yrði þetta leikur sem yki þunga í málflutningi ESB-aðildarsinna hér á landi og í Noregi.
Frá Noregi berast einmitt fréttir um að aðildarsinnar þar tali á svipaðan hátt og Viðreisnarráðherrarnir hér. Orð Hönnu Katrínar og Þorgerðar Katrínar verða síðan enn til að espa Norðmenn og ala á ótta um að þeir verði eins og nátttröll í EES.
Jonas Gahr Støre forsætisráðherra vill hins vegar ekki rugga bátnum enda sýna klannanir að meirihluti Norðmanna er andvígur aðild að ESB.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Kristrún Frostadóttir spilar úr málinu hér á heimavelli og hvort Dagur B. Eggertsson og fylgismenn hans um hraðferð inn í ESB sækja í sig veðrið innan Samfylkingarinnar.