15.8.2017 10:24

Enskan truflar þýskan þingmann

Í The Telegraph sagði að einn af fremstu stjórnmálamönnum Þýskalands hefði gert „fyrirvaralausa árás á vaxandi notkun ensku í daglegum samskiptum“.

Jens Spahn, þingmaður og einn af aðstoðarmönnum Wolfgangs Schäubles fjármálaráðherra Þýskalands, komst í fréttir í Þýskalandi og miklu víðar í gær þegar hann sagði það fara „í taugarnar á sér“ þegar þjónar töluðu aðeins ensku í veitingahúsum í Berlín. Engum þjóni í París dytti slík vitleysa í hug.

Í viðtali við blaðið Neue Osnabrücker Zeitung var Spahn spurður hvort hann mundi beita sér fyrir því á þýska þinginu að virkja þingmenn til að halda fram hlut þýskunnar af meiri þunga en nú væri gert.

Spahn svaraði spurningunni hiklaust játandi og sagði að ekki tækist að treysta samheldni íbúa Þýskalands nema allir töluðu þýsku. Þetta yrðu innflytjendur að skilja og virða og síðan sagði hann: „Það fer auk þess sífellt meira í taugarnar á mér að á nokkrum veitingastöðum í Berlín tala þjónar ekki annað en ensku. Engum dytti í hug að gera þetta í París.“

Ummælin eru endurbirt í fjölda þýskra blaða og bresku blöðin vitna einnig til þeirra. Í The Telegraph sagði að einn af fremstu stjórnmálamönnum Þýskalands hefði gert „fyrirvaralausa árás á vaxandi notkun ensku í daglegum samskiptum“.

Fyrir nokkrum misserum ræddi ég við Trausta Valsson, prófessor við Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Samtalið snerist meðal annars um þróun miðborgar Reykjavíkur og ferðamannastrauminn. Trausti sagði þá að hann talaði ekki annað en ensku færi hann í miðborgina, annað þýddi ekki á veitingastöðum.

Menn þurfa ekki að fara í miðborg Reykjavíkur til að verða að tala ensku á íslenskum veitingastöðum, þetta er reynsla sem menn kynnast um land allt. Útlendingum við störf á veitingastöðum eða í ferðaþjónustu fækkar ekki heldur fjölgar.

Þjóðverjar eru í þessari stöðu eins og við. Þeir eiga einnig við þann vanda að etja eins og við að þýsk fyrirtæki hallast að því að nota ensk heiti.

Germanwings er til dæmi lággjaldaflugfélag í eigu Lufthansa. Hvað sem um það má segja að stjórnendur Lufthansa hafi ákveðið að grípa til enskunnar við nafngiftina má hrósa þeim fyrir að velja einfaldara nafn heldur en Air Connect Iceland eins og Flugfélag Íslands heitir núna. Hvað sem líður ensku-áráttunni við að breyta nafninu er ekki síður einkennilegt að velja þetta þrískipta nafn á flugfélag.

Það ber vott um skort á hugmyndaflugi og er misheppnuð tilraun til að vera heimsmaður að geta ekki valið íslensku fyrirtæki íslenskt nafn.