2.5.2023 10:15

Enn vegið að öryggi Reykjavíkurflugvallar

Skýrslan er með öðrum orðum til marks um að meirihluti borgarstjórnar telur sér fært að sauma áfram að flugvellinum og draga úr öryggi þar.

Enn ein skýrslan um að draga úr öryggi Reykjavíkurflugvallar var birt af Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra fimmtudaginn 27. apríl.

Í upphafi tilkynningar innviðaráðuneytisins um skýrsluna segir að niðurstaða starfshóps til að meta áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar sé „að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari“.

Fulltrúi borgarstjórnar í hópnum bókaði að fyrirhuguð byggð mundi hafa í för með sér „einhverjar breytingar en umfang þeirra [væri] óverulegt“. Ekkert hefði því komið fram sem benti til að aðstæður fyrir flug á Reykjavíkurflugvelli röskuðust „það mikið að byggingaráformum í Skerjafirði skuli annað hvort frestað eða þau slegin af“.

1243396Reykjavíkurflugvöllur (mynd: mbl,is/Árni Sæberg).

Starfshópurinn taldi „ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði“. Hann benti „á mögulegar mótvægisaðgerðir“. Enginn veit um áhrif þeirra.

Skýrslan er með öðrum orðum til marks um að meirihluti borgarstjórnar telur sér fært að sauma áfram að flugvellinum og draga úr öryggi þar. Í skýrslunni kemur einnig fram að enn liggi ekki fyrir miklar upplýsingar um kviku á og við Reykjavíkurflugvöll. En talið er að hún aukist vegna framkvæmdanna í Skerjafirði.

Í heild boðar því skýrslan minna öryggi og óvissu um áhrif kviku á Reykjavíkurflugvelli. „Litlar sem engar mælingar liggja fyrir á kviku,“ á flugvellinum segir í skýrslunni. Snöggar breytingar í vindum (e. wind shear) og mikillar kviku (e. turbulence) valda uppnámi á flugferli flugvéla. Ekki eru til alþjóðlegir staðlar til viðmiðunar um hættumörk.

Fulltrúi Reykjavíkurborgar telur sig þrátt fyrir þessa óvissu geta fullyrt að áhrif nýrrar byggðar yrðu „óveruleg“ á flugöryggi og aðrir í starfshópnum veita skilyrt samþykki sitt við því.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra slær úr og í þegar rætt er við hann um niðurstöðu starfshópsins en virðist hallast að framkvæmdum í Nýja Skerjafirði með mótvægisaðgerðum. Ráðherrann vill ekki fara að neinu óðslega en samþykkir samt að framkvæmdir verði hafnar í Nýja Skerjafirði.

Ráðherrann og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri rituðu í nóvember 2019 undir samkomulag um möguleika á að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Skyldi rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verða tryggt til að þjóna innanlandsflugi þar til nýr flugvöllur væri tilbúinn. Ráðherrann hefur einnig slegið úr og í vegna Hvassahraunsvallarins eftir að eldgos hófust á Reykjanesi.

Þetta er í einu orði sagt óboðleg staða frá öryggissjónarmiði. Borgaryfirvöld sem njóta einskis trausts á fjármálamörkuðum og hafa misst fjármálaleg tök á eigin rekstri hafa enga burði til að takast á við þetta stóra viðfangsefni frekar en önnur.

Innviðaráðuneytið fer ekki aðeins með stjórn samgöngumála heldur einnig stjórn sveitarstjórnarmála. Að þar skuli dansað eftir pípu borgarstjórans magnar enn alvarleika þess sem við blasir í öryggismálum Reykjavíkurflugvallar.