Enn um ógnarstjórn Eflingar
Svo virðist sem forystusveit ASÍ þori ekki til atlögu við þá sem sýna fráfarandi starfsmönnum Eflingar fyrirlitningu og vinna jafnframt gegn lífskjarasamningnum.
Þráinn Hallgrímsson, fyrrv. skrifstofustjóri Eflingar, birti opið bréf í Morgunblaðinu fimmtudaginn 23. janúar til Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, undir fyrirsögninni: Við krefjumst virðingar.
Hann rifjar upp að fyrir tæpum tveimur árum hafi á vef nýstofnaðs Sósíalistaflokks Gunnars Smára Egilssonar, Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Viðars Þorsteinssonar verið „lýst eftir andstæðingum stjórnar Eflingar til að fella stjórnina“. Þetta var gert undir þeim formerkjum að forystumenn félagsins og starfsmenn „væru óhæfir til að starfa fyrir launafólk“. Þau Sólveig Anna og Viðar lásu þetta sósíalíska ákall, líklega höfundar með Gunnari Smára. Sólveig Anna bauð sig fram til formennsku í félaginu. Um 8% félagsmanna studdu hana. Hún hefur hvað eftir annað sagt boðskap sinn byltingarkenndan meðal annars á Facebook 21. október 2018 þegar hún hrópaði „... kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.“
Myndin er af vefsíðu Eflingar: Sólveig Anna Jónsdóitir og Viðar Þorsteinsson.
Þráinn rifjar upp að Sólveig Anna hóf feril sinn „í starfsmannamálum [Eflingar] með því að reka skrifstofustjóra Eflingar fyrirvaralaust á fjölmennum starfsmannafundi“. Þá hét hún að reka ekki fleiri starfsmenn en síðan hefur hún „sagt upp eða hrakið úr starfi á annan tug starfsmanna“.
Þráinn segir:
„Þú hefur beitt öllum brögðum hinna lágkúrulegustu atvinnurekenda með framkvæmdastjóra þínum til að losa þig við starfsmenn sem um langan tíma hafa haldið uppi starfsemi á skrifstofu Eflingar. Okkur er löngu nóg boðið og við krefjumst virðingar fyrir störf okkar.[...] Ég vil halda því fram að viðhorf og framkoma ykkar Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar, lýsi mannvonsku og mannfyrirlitningu sem aldrei hefur viðgengist á skrifstofum stéttarfélaga fyrr.“
Í sama mund og Sósíalistaflokkurinn boðaði framboð í næstu þingkosningum hóf Efling árás á Dag B. Eggertsson borgarstjóra, þann samfylkingarmann sem gegnir helsta pólitíska trúnaðarstarfinu. Stofnað var til auglýsingaherferðar gegn Degi B. og málgagn Sósíalistaflokksins, Miðjan, hóf persónulegar árásir á hann.
Hörður Ægisson segir í leiðara Fréttablaðsins föstudaginn 24. janúar:
„Forystusveit Eflingar, sem aðhyllist 19. aldar marxískar kennisetningar um viðvarandi stéttastríð milli atvinnurekenda og launafólks, ásamt fylgihnöttum þeirra í Sósíalistaflokknum, virðist hafa það að markmiði að brjóta upp þann stöðugleika sem náðst hefur á vinnumarkaði. [...]Allir sem andmæla ruglinu sem þaðan [frá Sólveigu Önnu og co.] kemur, breytir þá litlu hvort það séu forsvarsmenn í atvinnulífinu eða fyrrverandi starfsmenn Eflingar til margra ára, eru um leið útmálaðir sem óvinir hinna vinnandi stétta. Sífellt fleiri eru hins vegar farnir að átta sig á því hverjir þeir raunverulega eru.“
Svo virðist sem forystusveit ASÍ þori ekki til atlögu við þá sem sýna fráfarandi starfsmönnum Eflingar fyrirlitningu og vinna jafnframt gegn lífskjarasamningnum. Að með aðgerðaleysi leggi verkalýðsforingjar blessun yfir allt þetta brölt sósíalista rýrir traust á heilindum þeirra og grefur undan virðingu hreyfingarinnar.