30.9.2020 10:28

Enn trompar Trump sjálfan sig

Biden sneri sér frekar að sjónvarpsvélunum en Trump og talaði um forsetann í þriðju persónu til að halda honum fjarri sér.

Um alla heimsbyggðina undrast menn orðbragð, upphrópanir og gagnkvæmar ásakanir sem einkenndu fyrstu kappræður forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum, repúblikanans Donalds Trumps og demókratans Joes Bidens. Stundum var erfitt að greina orðaskil þegar keppinautarnir töluðu samtímis. Fá mál voru brotin til mergjar, stefnumál urðu að víkja fyrir stóryrðum. Trump fór að venju hvað eftir annað með rangt mál.

Donald Trump gerði ítrekaðar atlögur að Biden til að ná af honum orðinu auk þess sem forsetinn hlífði ekki Chris Wallace frá Fox News sem stjórnaði umræðunum. Eftir kappræðurnar setti Trump mynd á Twitter þar sem hann lýsir Wallace sem andstæðingi sínum með Biden.

EjIm61JVgAA9J05Þessa mynd setti Trump á Twitter eftir kappræðurnar til að sýna að hann hefði staðið einn bæði á móti Biden og stjórnandanum Wallace.

Joe Biden lét frammíköll forsetans fara sífellt meira í taugarnar á sér, hann hristi höfuðið næsta örvinglaður og eitt eftirminnilegasta augnablik kappræðnanna var þegar hann spurði: „Viltu ekki halda kjafti, maður?“

Biden sneri sér frekar að sjónvarpsvélunum en Trump og talaði um forsetann í þriðju persónu til að halda honum fjarri sér.

Kannanir sýna að Biden er talinn hafa staðið sig betur en Trump.

Þá segir kosningastjórn Bidens að borist hafi um 4 milljónir dollara í kosningasjóð hans á þeim 90 mínútum sem kappræðurnar stóðu. Meira fé en frambjóðandanum hafi áður tekist að safna á svo skömmum tíma.

Chris Wallace spurði Trump hvað eftir annað hvort hann vildi draga skil á milli sín og hópa sem halda á loft yfirburðum hvíta kynstofnsins. Nefndi Wallace í því sambandi hópinn Proud Boys. Þá svaraði Trump:

Proud Boys, stand back and stand by.“ (Haldið ykkur til hlés en verið tilbúnir.) Þetta vakti mikla gleði innan raða Proud Boys og einn foringja þeirra túlkaði orð forsetans á þann veg að í þeim fælist í raun að nú skyldu Proud Boys láta finna fyrir sér. Vegna þessa væri tilefni til að gleðjast. Aðrir óttast að orð forsetans verði til að ýta undir kynþáttaátök í Bandaríkjunum og þau magnist enn í aðdraganda kosninganna 3. nóvember.

Þegar litið er á umsagnir um kappræðurnar í bandarískum blöðum fara skoðanir dálkahöfunda nokkuð eftir því hvort þeir halda með forsetanum eða Biden. Á því eru vissulega undantekningar. Þannig segir John Podhoretz, dálkahöfundur íhaldssama dagblaðsins New York Post:

„Við blasir sú einfalda staðreynd að ótrúlega óþægilegt var að fylgjast með Trump en ekki Biden.“

Fyrir Trump hafi skipt höfuðmáli að ná til þeirra kjósenda sem kynnu að láta sig hafa það að kjósa hann hvað sem liði framkomu hans. Telur Podhoretz að Trump hafi gjörsamlega mistekist að ná til þessa fólks. „Það kom örugglega fyrir eitt augnablik eða kannski tvö þegar maður hlustaði á leiðtoga frjálsa heimsins og hugsaði með sér: „En sá drullusokkur,“ segir Podhoretz.

Keppinautarnir eiga eftir að hittast tvisvar í sjónvarpssal áður en kjósendur gera upp hug sinn. Eftir fyrstu viðræður þeirra heyrast þó raddir um að óæskilegt sé að endurtaka leikinn, hann hleypi frekar illu blóði í fólk en að upplýsa það.