Enn kvarnast úr Miðflokknum
Haldi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, dampi út kjörtímabilið kann hann að ganga í fótspor Ingu Sæland árið 2025.
Birgir Þórarinsson alþingismaður sem náði endurkjöri á lista Miðflokksins í kosningunum 25. september hefur ákveðið að ganga til liðs við þingflokk sjálfstæðismanna. Þetta er stórt skref fyrir nýkjörinn þingmann. Rök Birgis birtast í Morgunblaðinu í dag (9. október). Hann telur ómaklega hafa verið vegið að sér innan Miðflokksins vegna gagnrýni sinnar á framgöngu þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klausturbar síðla árs 2018.
Groddasamræður þingmannanna á barnum leiddu
til þess að tveir þátttakenda í þeim voru gerðir brottrækir úr Flokki fólksins.
Hvorugur þeirra er í hópi þingmanna nú. Ólafi Ísleifssyni var hafnað við
uppstillingu innan Miðflokksins fyrir kosningar og Karl Gauti Hjaltason komst
ekki á þing vegna reglna um jöfnunarþingsæti. Hann telur sig þó eiga „rétt“ til
þingsetu vegna klúðurs við atkvæðatalningu í NV-kjördæmi. Gerir hann kröfu til
þess að röng niðurstaða í talningunni gildi.
Birgir Þórarinsson er genginn til liðs við þingflokk sjálfstæðismanna. Hann hefur oftar en einu sinni verið „ræðukóngur“ alþingis (mynd: mbl.is).
Í Klausturbarsmálinu sannast að gálaust tal gerir stjórnmálaflokk svo að segja að engu. Nú sitja aðeins tveir eftir í þingflokki Miðflokksins, vinirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, sem kann að missa þingsæti sitt verði fallist á kröfu Karls Gauta um að ranga niðurstaðan í talningu atkvæða í NV-kjördæmi gildi.
Í þessu furðulega máli um „rétt“ til uppbótarþingsæta er undarlegt að þingmennirnir sem sitja sem jöfnunarmenn á grundvelli lokaniðurstöðunnar í talningunni skuli ekki verja „rétt“ sinn opinberlega. Það er meira að segja látið í veðri vaka að þeir séu vanhæfir til þess á sama tíma og rætt er við þá sem segjast eiga um sárt að binda eins og þeir séu óhlutdrægir. Þar er fréttastofa ríkisútvarpsins fremst í flokki.
Maskína kannaði (27. sept. til 7. okt.) hvort Íslendingar treystu niðurstöðum alþingiskosninganna 25. september. Niðurstöðurnar voru birtar 8. október, þær eru afgerandi: 76,7% treysta kosningum vel eða í meðallagi vel en 23,3% illa. Minnst er vantraustið vegna kosningaúrslitanna í NV-kjördæmi.
Atlagan að kosningaúrslitunum er álíka vanhugsuð frá upphafi og klúðursleg framkvæmd talningar í NV-kjördæmi. Hvoru tveggja ber vott um hömlu- og agaleysi sem síðan er ýtt undir af gagnrýnislausum fréttamönnum. Það á ekkert skylt við frelsi fréttamanna að flytja óvandaðar, illa unnar eða hlutdrægar fréttir. Ekkert grefur meira undan trausti í garð fjölmiðla en virðingarleysi fyrir grunnreglum góðrar blaðamennsku.
Á liðnu kjörtímabili sátu tveir þingmenn eftir í þingflokki Flokks fólksins eftir að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason voru reknir þaðan. Inga Sæland tryggði flokknum líf út kjörtímabilið og fyrir kosningarnar náði hún saman listum í öllum kjördæmum og á nú sex manna þingflokk. Haldi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, dampi út kjörtímabilið kann hann að ganga í fótspor Ingu árið 2025.
Smáflokkalífið er erfitt á alþingi, raunveruleg áhrif lítil og töluverðar líkur á að kreddur sem vekja fjölmiðlaáhuga nái yfirhöndinni. Samfylking, Píratar og Viðreisn eru allt flokkar sem bera merki um þetta.