5.12.2023 13:40

Enn eitt Pisa-áfallið

Líklegt er að skýringa sé frekar að leita í innri starfi skóla og þeirri staðreynd að íslenskir nemendur á þessum aldri fá ekki næga þjálfun í að taka próf. 

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) í París stendur að verkefni undir enska heitinu The Programme for International Student Assessment (PISA). Verkefnið var samþykkt árið 1997 og fyrst hrundið í framkvæmd árið 2000 þegar könnuð var hæfni 15 ára nemenda í 32 löndum í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði.

Kannanir af þessu tagi hafa síðan farið fram á þriggja ára á fresti og í dag 5. desember voru birtar niðurstöður í PISA 2022. Könnunin frestaðist um eitt ár að þessu sinni vegna COVID-19-faraldursins. Alls tók 81 þjóð þátt í könnuninni að þessu sinni þar af 37 aðildarríki OECD. Menntamálastofnun sá um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins.

1457116Þróun Pisa-árangurs íslenskra nemenda í lesskilningi frá árinu 2000.

Asíuþjóðir raða sér í efstu sex sætin: Singapúr, Macaó (Kína), Tævan, Hong Kong (Kína), Japan og Suður-Kórea. Eistland kemur í 7. sæti, þá Sviss, Kanada og Holland í 10. sæti.

Norrænu þjóðirnar mælast neðar, Danir ásamt Belgum, Pólverjum og Bretum í 12. sæti, Finnland í 20. sæti, Finnar voru í efsta sæti á Pisa-listanum árin 2000, 2003 og 2006.

Ég var menntamálaráðherra 4. desember árið 2001 þegar niðurstöður fyrstu Pisa-könnunarinnar voru birtar. Þá fékk skólakerfið og aðrir hér nokkuð áfall en staðan var þó miklu betri þá en núna. Það hefur sigið jafnt og þétt á verri veg síðan og fallið núna er mikið áfall miðað við hvað öll ytri umgjörð skólastarfs hér hefur styrkst á undanförnum 22 árum.

Stærðfræði var meginviðfangsefni PISA 2022, þar skoruðu íslenskir nemendur 459 punkta miðað við 472 punkta meðaltal í OECD-ríkjum.

Í lestri skoruðu íslenskir nemendur 436 punkta miðað við 476 punkta meðaltal í OECD-ríkjum.

Í náttúruvísindum skoruðu íslenskir nemendur 447 punkta miðað við 485 punkta meðaltal í OECD-ríkjum.

Ísland er alls staðar undir meðaltali og hefur lækkað í öllum greinum miðað við 2018.

Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, talar eins og um kerfislægan vanda sé að ræða og það sé unnið að því að stokka upp kerfið. Sé þetta rétt verður fróðlegt að kynnast því hvernig kerfinu verður breytt að þessu sinni.

Líklegt er að skýringa sé frekar að leita í innri starfi skóla og þeirri staðreynd að íslenskir nemendur á þessum aldri fá ekki næga þjálfun í að taka próf. Ætli agi og kröfur um að skila árangri sé ekki það sem skilur helst á milli nemenda hér á þessum hluta jarðarkringlunnar og hinna sem skipa efstu sætin og koma frá Asíu.