28.4.2017 17:54

Enn einn fjölmiðill fellur vegna Gunnars Smára

Að sjálfsögðu leið Fréttatíminn undir lok undir stjórn Gunnars Smára Egilssonar. Allt sem hann hefur tekið sér fyrir hendur á fjölmiðlamarkaði er brennt með marki loftkastalanna.

Í dag er gerð tilraun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að finna diplómatíska leið til að hefta kjarnorkuvopna- og eldflaugaæðið sem ræður hjá alræðisherranum í Norður- Kóreu. Bandaríkjastjórn freistar þess í samvinnu við Kínverja að snúa N-Kóreustjórn af villu síns vegar. Til að árétta þungann í málflutningi sínum hafa Bandaríkjamenn stóraukið herstyrk sinn á sjó, í lofti og á landi til að sýna að þeir séu við öllu búnir. Sjá hér.

Í húfi er að stöðva Norður-Kóreumenn áður en þeir smíða kjarnaodd og eldflaug undir hann sem nær til skotmarka ú Bandaríkjunum. Sé ekkert að gert kann það að gerast á þessu kjörtímabili Donalds Trumps að Bandaríkjamönnum verði ógnað á þennan hátt af Norður-Kóreumönnum.

Að sjálfsögðu leið Fréttatíminn undir lok undir stjórn Gunnars Smára Egilssonar. Allt sem hann hefur tekið sér fyrir hendur á fjölmiðlamarkaði er brennt með marki loftkastalanna. Fyrir 15 árum var honum hjálpað með leynd að bjarga Fréttablaðinu frá þroti með leynisölu til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Ingi Freyr Vilhjálmsson var blaðamaður á Fréttatímanum og skrifaði þar um hefðbundin umfjöllunarefni sín, þau snúast ekki síst um að sverta Bjarna Benediktsson forsætisráðherra. Nú skrifar hann hins vegar grein um brottför Gunnars Smára frá Fréttatímanum. Á vefsíðunni Eyjunni er sagt frá grein Inga Freys meðal annars á þennan veg:

„Þegar rekstur Fréttatímans var kominn í óefni segir Ingi Freyr að Gunnar Smári hafi verið fyrsti starfsmaðurinn til að yfirgefa fyrirtækið, fyrst hafi hann sagst vera að stofna flokk svo breytt sögunni að hann hafi verið rekinn. Aðrir hluthafar Fréttatímans hafi áfram bent starfsmönnum á að tala við Gunnar Smára um stöðuna, það væri óvenjulegt ef það hefði verið búið að reka Gunnar Smára:

„Niðurstaðan hlýtur að vera sú að Gunnar Smári hafi sjálfur tekið ákvörðun um að hætta daglegum störfum fyrir Fréttatímann þegar í óefni var komið. Eftir sitja hluthafar, kröfuhafar og starfsmenn með fjárhagslegt tap af og hinir síðastnefndu eru í algjörri óvissu um tekjuöflun sína á næstu mánuðum.“

Ingi Freyr segir hegðun Gunnars Smára ekki sósíalisma í verki, skipti þá engu máli að hann sé að stofna stjórnmálaflokk til að berjast fyrir réttindum launafólks:

„Svona hegðun gagnvart starfsfólki fyrirtækis og öllum hlutaðeigandi aðilum sem bera skaða af rekstri Fréttatímans er aldrei gott veganesti inn í stjórnmálastarf, sama svo sem hvað flokkurinn heitir og sama hvað verður úr þessum sósíalistaflokki Gunnars Smára. Svona hegðar maður sér bara ekki sem atvinnurekandi. Skortur Gunnars Smára á auðmýkt í þessum útskýringum sínum og skuldaskilum sínum við starfsfólk blaðsins var algjör.““

 

 Gunnar Smári svara Inga Frey á Facebook. Eins og jafnan áður er skýring Gunnars Smára að eitthvað eða einhver annar hafi neytt hann til að skilja allt eftir í ólestri á Fréttatímanum. Þá er einfaldlega róið á ný mið.

Einhver gaf þá skýringu á stofnun Sósíalistaflokksins að undir merkjum hans stefndi Gunnar Smári á að ná þeim fjármunum úr ríkissjóði sem mælt er fyrir um í 3. gr. laga um fjármál stjórnmálasamtaka. Þar segir:

 

„Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.“

 

Augljóst er af málum sem ratað hafa fyrir dómstóla vegna þessarar lagagreinar eða illdeilna sem hún hefur vakið innan smáflokka eða flokksbrota að freistingar sem hún vekur eru miklar.