Enginn bilbugur vegna EES
Óþarft er að kenna EES-aðildinni um að nú hafi verið flutt vitlaus vantrauststillaga. Fyrir þinginu liggja mörg mikilvæg mál sem snerta beint íslenska hagsmuni hvað sem líður EES-aðildinni.
Norsk nefnd sem stjórnarflokkarnir þar skipuðu árið 2022 til að gera faglega úttekt á því hvernig aðild Noregs að EES-samstarfinu hefði þróast undanfarinn áratug skilaði áliti 11. apríl. Meginniðurstaða nefndarinnar er að Norðmönnum farnist vel innan EES og óskynsamlegt sé að huga að tvíhliða samningum við ESB eins og Svisslendingar hafi gert eða feta í fótspor Breta og segja skilið við sameiginlega evrópska markaðinn.
Nefndin hvetur hins vegar til þess að norsk yfirvöld nýti sér þau tækifæri sem EES-samstarfið býður til að hafa áhrif á mótun og þróun EES-reglna og gæta hagsmuna Noregs í hvívetna. Norski utanríkisráðherrann, jafnaðarmaður og stuðningsmaður aðildar Noregs að ESB, fagnaði skýrslunni. Ótti sem hann hefði lýst á sínum tíma um að Norðmenn lentu í blindgötu innan EES væri ástæðulaus, samstarf við ESB hefði dafnað með nýjum tækifærum.
Flokkar sem vilja ESB-aðild Íslands hafa dregið í land eins og ESB-aðildarsinnar í Noregi. Þeir sjá að ekki er tilefni til að stofna til harðvítugra deilna á heimavelli um ESB-aðild. Skaðinn af því yrði meiri en ávinningurinn. Nýja-Samfylkingin undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur tekið ákvörðun um að ýta ESB-aðild til hliðar. Sama verður ekki sagt um ESB-flokkinn, Viðreisn. Þar á bæ flagga menn aðildarhugmyndinni þó af minni sannfæringarkrafti en áður og tala niður krónuna. Væri ekki haldið í þessi sjónarmið hyrfi tilvistargrunnur flokksins.
Samfylkingin stefnir að því að verða stór og stjórntækur flokkur að loknum næstu þingkosningum og vill ekki að jaðarkrafa um ESB-aðild skemmi fyrir áformum sínum um framkvæmd tveggja-kjörtímabila-stefnunnar og hækkunar skatta. Viðreisn gefur stjórnaraðild upp á bátinn eins og hver annar smáflokkur.
Hér er fylgt sömu stefnu og í Noregi að aðildin að EES sé besta lausnin til aðildar að sameiginlega evrópska markaðnum. Hér eins og í Noregi hafa ESB-aðildarsinnar hægt um sig en raddir heyrast frá þeim sem kveinka sér undan EES-aðildinni án þess að segjast vera andvígir henni. EES-kvartanir birtast af ólíklegustu tilefnum.
Svona blasti vantraustsumræðan á alþingi við Ívari teiknara Morgunblaðsins.
Í leiðara Morgunblaðsins í dag (19. apríl) er réttilega bent á að flutningur vantrauststillögu á ríkisstjórnina nú um viku eftir að hún var mynduð hafi verið tilefnislaus tímasóun á alþingi. Síðan fer höfundurinn að býsnast yfir setningu laga og reglna sem tengjast EES-aðildinni, það sé „fjarri því að vera geðsleg sending [með bögglapósti frá Brussel] nema örsjaldan“ og þetta séu „aðalmerkin um að þingið hafi eitthvað til að fást við“. Tillagan um vantraust núna sé „nefnilega glöggt merki um vöntun á raunverulegum verkefnum“ á alþingi.
Óþarft er að kenna EES-aðildinni um að nú hafi verið flutt vitlaus vantrauststillaga. Fyrir þinginu liggja mörg mikilvæg mál sem snerta beint íslenska hagsmuni hvað sem líður EES-aðildinni. Hér skulu aðeins nefndar breytingar á útlendingalögum og lögreglulögum.
Þeir sem vilja telja þjóðinni trú um að taka verði við öllu hráu sem frá Brussel kemur kjósa að veifa röngum málstað frekar en öngvum.